Hitafundur í Öskju

Vel á annað hundrað íbúar Skerjafjarðar komu saman á íbúafundi …
Vel á annað hundrað íbúar Skerjafjarðar komu saman á íbúafundi í Öskju í kvöld af tilefni nýrrar byggðar sem reisa á í austur af Skerjafirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptar skoðanir eru á nýju íbúðahverfi í Skerjafirði. Íbúar hafa áhyggjur af því að mikið ónæði muni skapast af framkvæmdunum, mikilli mengun, flugöryggi og lífríki í fjöru fjarðarins. Þá gagnrýna þau jafnframt borgaryfirvöld fyrir að taka ekki samtalið við íbúa á svæðinu.  

Vel á annað hundrað íbúar Skerjafjarðar komu saman á íbúafundi í Öskju í kvöld vegna áforma um nýja íbúabyggð sem reisa á í austur af Skerjafirði.

Fundurinn bar yfirskriftina Skjaldborg um Skerjafjörð og var boðaður vegna framkvæmda samkvæmt nýju deiliskipulagi sem sexfaldar íbúafjölda Skerjafjarðar með allt að fimm hæða íbúðablokkum. Íbúar voru hvattir til fundarins með það að markmiði að standa vörð um nærumhverfi sitt, umferðaröryggi, lýðheilsu, náttúruvernd og flugöryggi. 

Hafa áhyggjur af umferðarþunga

Á samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir 1.400 nýjum íbúðum í Skerjafirði og þar með 3.500 íbúum til viðbótar við þá 700 íbúa sem þar eru fyrir.

Ein ökufær leið eru í og úr Skerjafirði og engin áform um framkvæmdir á aðalgatnakerfinu vestan Snorrabrautar samkvæmt Þórarni Hjaltasyni samgönguverkfræðingi, eins ræðumanna á fundinum sem fór með erindi um umferð og gatnaskipulag. 

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki fengið að tjá sig

Á fundinum voru borgaryfirvöld gagnrýnd fyrir að líta fram hjá öllum skýrslum, rannsóknum sérfræðinga og óvanda stjórnsýsluhætti. Þá segjast íbúar ekki hafa fengið að tjá sig um að í bakgarðinum rísi þessi íbúðarbyggð á meðan ekki hefur verið fundinn betri kostur fyrir flugvöllinn.

Einn fundur hefur verið haldinn með íbúum þar sem þeim var ekki gefinn kostur á að spyrja spurninga fyrr en þess var krafist af íbúum. Fengu þeir þá að spyrja þriggja spurninga en ekki meir.

Eggert Hjartarson formaður.
Eggert Hjartarson formaður. mbl.is/Kristinn Magnusson

Ánægður með mætinguna

Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Eggert Hjartason formanns Prýðifélagsins Skjaldar, íbúasamtaka Skerjafjarðar, eftir fundinn kvaðst hann mjög ánægður með mætinguna, en á fundinn mættu mun fleiri en hann átti von á. 

„Þessi fundur gekk vel að mér fannst. Undirtektirnar voru góðar, fólk kom með mjög góða punkta, þetta voru góðar upplýsingar í sambandi við flugvöllinn og umferðarmálin þannig að ég held að við í hverfisfélaginu ættum að geta unnið helling úr þessu sem við fengum hérna í kvöld og að það verði okkur til framdráttar í okkar baráttu við því að þessi byggð verði sett upp.“

Í lok fundarins lagði Prýðisfélagið Skjöldur fram ályktun sem lesa má hér að neðan.

„Fyrirhuguð byggð í hinum Nýja Skerjafirði gerir ráð fyrir 1.400 íbúðum með u.þ.b. 3.600 íbúum. Það mun sexfalda íbúafjölda Skerfirðinga. Einungis er, og verður, ein ökufær leið inn og út úr hverfinu. Gera má ráð fyrir að umferðarþungi um Suðurgötu og Einarsnes muni einnig sexfaldast, úr 2.800 ökutækjum á sólarhring í 16.800. Borgaryfirvöld neituðu Skerfirðingum um sómasamlega kynningu á þessum áformum og höfnuðu öllu samráði við þá. Það eru óviðunandi og ólýðræðisleg vinnubrögð.

Suðurgata ,Njarðargata og Hringbraut, anna ekki lengur eðlilegu umferðarflæði á álagstíma. Sífellt fleiri þéttingarreitir í Miðbæ og Vesturbæ, auka stöðugt umferðarþungann vestan Snorrabrautar með tilheyrandi gegnumakstri um íbúðahverfi. Þegar allir þessir reitir verða fullbyggðir, nýr Landspítali við Hringbraut tekinn til starfa með öllu starfsfólki núverandi Landspítala í Fossvogi og fullbyggður Nýr Skerjafjörður, verður gatnakerfið löngu sprungið vestan Snorrabrautar. Ekkert liggur fyrir um viðbrögð borgaryfirvalda við þessu umferðaröngþveiti sem nálgast nú neyðarástand.

Reykjavíkurflugvöllur verður í Vatnsmýri a.m.k. næstu 20 árin. Nýútkomin skýrsla sérfræðinga um flug- og rekstraröryggi vallarins, kveður skýrt og afdráttarlaust á um þá niðurstöðu að byggð hins Nýja Skerjafjarðar muni ógna enn frekar öryggi vallarins. Það er ótvírætt brot á samkomulaginu ríkis og borgar um völlinn, frá 2019. Við viljum í þessu samhengi árétta stranglega, að flugöryggi vallarins snýst einnig um öryggi þeirrar íbúðarbyggðar sem að vellinum liggur.

Byggingaland Nýs Skerjafjarðar er mjög mengaður jarðvegur. Við mótmælum þeim áformum að aka 13.000 vörubílsförmum af slíkum hroða um Skerjafjörð, Njarðargötu, Hringbraut og Miklubraut. Við mótmælum einnig þeim kosti að moka þessum hroða upp í háan hól á byggingarsvæðinu, einungis nokkra tugi metra frá núverandi íbúðabyggð, og láta hann veðrast þar, enda alls óvíst hversu heilsuspillandi það verður fyrir íbúa Skerjafjarðar.

Skipulag hins nýja Skerjafjarðar gerir ráð fyrir umtalsverðri landfyllingu í fjöru sem hefur hátt verndargildi vegna mikils fjölbreytileika lífríkis og er ein af fáum náttúrulegum fjörum sem eftir eru í Reykjavík. Strandlengja hins landfræðilega Seltjarnarness að norðanverðu, frá Gróttu og inn að Elliðaám er nánast alfarið manngerð. Fjaran að sunnanverðu frá golfvelli á Nesinu og inn í Fossvog, er hins vegar nánast ósnortin. Hún er ekki aðeins griðarsvæði fyrir íbúa hverfisins heldur alla borgarbúa. Aðför að þessari strandlengju yrði stefnumótandi aðför að náttúru- og umhverfisvernd á höfuðborgarsvæðinu. Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun ríkisins, Hafrannsóknarstofnun og ýmis náttúruverndarsamtök hafa mótmælt þessum áformum. Við munum berjast gegn þessum umhverfisspjöllum.

Af öllum þessum sökum mótmælum við harðlega ólýðræðislegum áformum um byggingu Nýs Skerjafjarðar sem er augljóslega stefnt gegn greiðri og öruggri umferð vestan Snorrabrautar, lýðheilsu almennings, flugöryggi og náttúruvernd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka