Keyrðu fram á aðra bílveltu

Tilkynnt var um bílveltu nærri Kvískeri laust fyrir klukkan tíu …
Tilkynnt var um bílveltu nærri Kvískeri laust fyrir klukkan tíu en viðbragðsaðilar keyrðu fram á aðra bílveltu á leið sinni á slysstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær bílveltur urðu í Öræfum um klukkan tíu í morgun. Tilkynnt var um bílveltu nærri Kvískeri laust fyrir klukkan tíu en viðbragðsaðilar keyrðu fram á aðra bílveltu á leið sinni á slysstað.

Sjúkraflug ræst út frá Höfn

Í því tilviki valt húsbíll út af veginum við Fjallsárlón. Kona, sem var farþegi í húsbílnum, slasaðist og var sjúkraflug ræst út frá Höfn í Hornafirði vegna hugsanlegra innvortis blæðinga.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er konan aum víða um líkamann en óljóst er um alvarleika áverkanna. Hún var keyrð með sjúkrabíl á Höfn og líklega verður hún flutt þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Til frekari skoðunar á HSU

Í tilviki bílveltunnar nærri Kvískeri fékk ökumaður  höfuðhögg og verður hann settur í myndatöku til öryggis. Verið er að flytja ökumanninn, eiginkonu hans og barn þeirra á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til frekari skoðunar.

Um erlenda ferðamenn er að ræða í báðum tilvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert