Komst yfir landamærin með klækjum

Eitthvað lítið var eftir af klökunum en til eyðimerkurinnar komust …
Eitthvað lítið var eftir af klökunum en til eyðimerkurinnar komust þeir. Ljósmynd/Aðsend

Ingólfi Stefánssyni var snúið við á landamærunum við Marokkó með bráðnandi klaka í farteskinu og komst hann ekki leiðar sinnar fyrr en um viku síðar með klækjum. Þá var skammt eftir af ferðatímanum og þurfti hann því að klára ætlunarverkið með breyttu skipulagi á styttri tíma. 

Fjallað var um ferðir Ingólfs Stefánssonar, Ingó, í Morgunblaðinu 3. maí, á upphafsdegi ferðalagsins. Þá lá leið hans til Seyðisfjarðar þar sem hann tók Norrænu til meginlandsins þaðan sem hann fór akandi á Land Rover niður til Marokkó. Með í för voru klakar sem hann ætlaði að koma frá Heinbergsjökli á Íslandi til Mhamid í Marokkó á 10 dögum. 

Ferðin gekk vel framan af og var Ingó kominn til hafnarborgarinnar Ceuta, sem tilheyrir Spáni, á sjöunda degi ferðarinnar, líkt og áætlað var. Þegar þangað var komið hafði klakinn sem komið hafði verið fyrir á toppi bílsins bráðnað en aðrir klakar í góðu standi.

Snúið við á landamærunum

Ingó hafði komist óáreittur í gegnum öll landamæri á ferðalaginu en þegar hann ætlaði að fara frá Ceuta niður til Marokkó var honum snúið við á landamærunum vegna frumrits sem ekki var með í för. Ingó kvaðst hafa orðið dálítið áttavilltur á þessum tímapunkti, það var annað hvort að snúa við eða láta senda pappírana til Ceuta.

Það kom þó ekki til greina að hætta á miðri leið og pappírarnir því sendir út hið snarasta. Að sögn Ingó var það þó hægara sagt en gert að fá pappíra senda til borgarinnar og voru þeir því ekki komnir í hans hendur fyrr en 21. maí. 

Því leið og beið og Ingó orðinn örvæntingafullur um að koma klökunum til Marokkó. Hann dvaldi í hafnarborginni í um viku þar sem hann kynntist fólki í samfélaginu dundaði við teikningar og skoðaði sig um. Klökunum fékk hann að koma fyrir í frysti á veitingahúsi í bænum, þar til hann gæti haldið leið sinni áfram. 

Það var síðan föstudaginn 19. maí sem hann fór aftur að landamærunum ásamt Bilil, sem hann hafði kynnst í Ceuta. Bilil ræddi við landamæraverði í von um að Ingó fengi undanþágu fyrir því að komast yfir til Marokkó. Einn landamæravarðanna hafði áður komið til Íslands og á endanum var undanþágan veitt.

Með dagspassa yfir til Marokkó í farteskinu keyrðu þeir félagar um 90 km til að leggja klakana í sandinn og svo aftur til Ceuta. Það var þó eitthvað lítið eftir af klökunum en til eyðimerkurinnar komust þeir. Vegna tafa á ferðinni tókst þó ekki að koma þeim til Mhamid líkt og lagt var upp með í upphafi ferðar. 

Það sem eftir var af klökunum þegar þeir komust á …
Það sem eftir var af klökunum þegar þeir komust á leiðarenda. Ljósmynd/Aðsend

„Móment aldarinnar“

Markmiðum ferðarinnar var þó ekki öllum lokið þegar Ingó var búinn að koma klökunum til eyðimerkurinnar. Hann hafði freistað þess að hitta dreng í Essaouira sem hann kynntist í ferð sinni til Marokkó árið 2007. Drenginn styrkti Ingó til náms og hitti síðan aftur í Marokkó árið 2011 við mikla fagnaðarfundi. 

Í gær ók hann því 750 kílómetra til Essaouira þar sem hann fann húsið sem strákurinn býr enn þá í ásamt mömmu sinni, pabba, ömmu og öðrum úr fjölskyldunni. Að sögn Ingó voru endurfundirnir „móment aldarinnar“. Strákurinn þekkti Ingó og fjölskyldan trúði því ekki að hann væri kominn alla þessa leið til þess að hitta þau aftur. Þetta var því ógleymanleg stund. 

Ljósmynd af því þegar Ingó hitti drenginn fyrir utan heimili …
Ljósmynd af því þegar Ingó hitti drenginn fyrir utan heimili hans Ljósmynd/Aðsend

Hlutirnir ganga ekki alltaf eftir áætlun

Eftir heimsóknina lá leið Ingó aftur til Ceuta um 750 kílómetra leið. Þaðan lagði hann svo af stað heim í gær. Norræna fer frá Danmörku 27. maí og því þarf hann að vera kominn þangað fyrir þann tíma. 

Þó ferðin hafi ekki gengið eins og áætlað var kveðst Ingó ánægður með að hafa tekist að hitta drenginn og koma klökunum í sandinn. 

Ingó á fagnaðarfundum fyrir utan heimili drengsins í Essaouira ásamt …
Ingó á fagnaðarfundum fyrir utan heimili drengsins í Essaouira ásamt móður hans. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert