Lára endurráðin framkvæmdastjóri Sinfóníunnar

Lára Sóley Jóhannsdóttir endurráðin framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Lára Sóley Jóhannsdóttir endurráðin framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákveðið að endurráða Láru Sóleyju Jóhannsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta stendur í fréttatilkynningu frá Sinfóníunni, en Lára hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hennar frá sumri 2019, þegar síðast var ráðið í stöðuna. 

Lára Sóley lauk meistaragráðu í listastjórnun frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 2019, en meðal starfsreynslu hennar er fiðluleikur og verkefnastjórnun. Hún var verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof á árunum 2010-2014 og gegndi þá einnig starfi framkvæmastjóra í afleysingum. 

Í tilkynningunni kemur fram að einhugur hafi verið innan stjórnar um að endurráða Láru til næstu fjögurra ára, þar sem hún hafi skilað mjög góðu starfi á undanförnu ráðningartímabili. Kveðst Sigurður Hannesson, formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar, ánægður með að Lára Sóley muni áfram gegna starfi framkvæmdastjóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert