Sigmar brigslar Samfylkingu um marklaust hjal

Sigmar Guðmundsson segir ekkert að frétta hjá Samfylkingunni.
Sigmar Guðmundsson segir ekkert að frétta hjá Samfylkingunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður skýrara með hverjum deginum að nýrri forystu Samfylkingar, og hluta þingflokksins, er slétt sama um Evrópumálin,“ skrifar Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, í aðsendri grein á Vísi í dag.

Kveður hann formann flokksins, Kristrúnu Frostadóttur, hafa sagt það afdráttarlaust um helgina að málið væri ekki á dagskrá flokksins, Samfylkingin væri upptekin við annað.

„Evrópuhugsjónin, sem Jóhann Páll hefur flutt prýðilegar ræður um á Alþingi, er komin ofan í læsta skúffu á Hallveigarstígnum. Hinar fjölmörgu og ljómandi fínu ræður og þingmál flokksins á undanförnum misserum, breyttust í marklaust hjal á sama tíma og fylgi við aðild og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB viðræður hefur aldrei verið meira. Mest í Samfylkingunni af öllum flokkum. Evrópusinnar allra flokka hljóta að vera hugsi yfir þessu,“ skrifar Sigmar.

Engin töfralausn

Sigmar segir efnahagsmál lykilinn að velferðinni og helstefna krónunnar sé arfaslök efnahagsstefna. Þá treysti sumir flokkar sér til að gera fleira en eitt í einu og hafi Samfylkingin ekki enn lýst því yfir að málaflokkar á borð við loftslagsmál, samgöngumál, orkumál séu komnir ofan í skúffu á meðan flokkurinn sé upptekinn við annað. Minni þetta óþægilega mikið á verkkvíða ríkisstjórnarinnar.

Sigmar segir aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru sennilega stærstu velferðarmál íslensks samfélags til lengri tíma. Tryggi þessir þættir lægri verðbólgu, lægri vexti og langþráða samkeppni að utan á íslenska fákeppnismarkaði.

„Þetta er ekki töfralausn og leysir ekki allan heimsins vanda,“ skrifar þingmaðurinn, „heldur er þetta leið að því marki að auka bæði stöðugleika og velferð. Gufuðu þessi rök skyndilega upp, eða hefur nýr formaður aðra skoðun en allir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar flokksins? Voru Jóhanna og Össur úti á túni þegar þau sóttu um aðild? Ekki að hugsa um velferðina?“ spyr hann.

Hvorugur með upphafsstafinn S

Sigmar segir alla stjórnarandstöðuflokkana nú reyna að berja einhvern dug, eins og hann orðar það, „í þessa verklausu ríkisstjórn til að ná niður vöxtum og verðbólgu“. Samfélaginu blæði vegna ástandsins og allir kalli eftir aðgerðum. „Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa meira að segja treyst sér til að gagnrýna harðlega stjórnlausan útgjaldavöxt ríkissjóðs á verðbólgutímum. Hvorugur þeirra ér reyndar með upphafsstafinn S,“ skrifar þingmaðurinn.

Einhver kunni að spyrja hvort Viðreisn ætti ekki að þóknast núverandi ástand bærilega, það auki jú sérstöðu flokksins. „Það má vel vera. En þetta einstaka mál er stærra en Viðreisn og stærra en Samfylkingin. Það skiptir meira máli að þetta verði að veruleika en staðan í skoðanakönnunum frá degi til dags. Sem Evrópusinna finnst mér þetta dapurleg þróun,“ svarar Sigmar eigin spurningu.

Hann segir allan gamla fjórflokkinn sameinast í afturhaldinu í hópknúsi sem sé hvort tveggja dragbítur á framfarir auk þess að kæfa niður hagsæld. „Það er dapurlegt. Íslenskur almenningur á miklu, miklu, miklu betra skilið,“ skrifar Sigmar Guðmundsson þingmaður að lokum.

Grein Sigmars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert