Stykkishólmskirkja ein fegursta kirkja heims

Stykkishólmskirkja er ein af tíu fegurstu kirkjum heims, samkvæmt tímaritinu …
Stykkishólmskirkja er ein af tíu fegurstu kirkjum heims, samkvæmt tímaritinu Architectural Digest. Jón Haraldsson arkitekt teiknaði kirkjuna. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

Áhugafólk um arkitektúr á Íslandi ætti ekki að þurfa að ferðast langt til að berja eina af fegurstu kirkjum heims augum, því samkvæmt tímaritinu Architectural Digest er ein slík á Stykkishólmi. 

Tímaritið birti í gær lista yfir tíu fegurstu kirkjur heims og er Stykkishólmskirkja þar á meðal. Á listanum eru til að mynda Kapellla heilags Georgs í Eþíópíu, Panagía Paraportianí-kirkja í Grikklandi og Borgundsstafkirkja í Noregi. 

Samkvæmt Architectural Digest hafa fegurstu kirkjur heims þrennt til að bera: þær veiti huggun, friðsæld og öruggan stað til tilbeiðslu. 

Í rökstuðningi tímaritsins segir að „fágaðar línur Stykkishólmskirkju sjáist vel úr fjarlægð þar sem þær teygji sig til móts við himinn og séu óvanaleg sýn“.

Stykkishólmskirkja á Snæfellsnesi, sem teiknuð var af Jóni Haraldssyni arkitekt, var vígð árið 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka