Sumarveður óljóst en skakviðri á förum

Í byrjun næsta mánaðar skýrist sumarveðrið betur.
Í byrjun næsta mánaðar skýrist sumarveðrið betur. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir erfitt að spá fyrir um komandi sumarveður fyrr en í byrjun næsta mánaðar. Þó ljúki skakviðri síðustu daga vonandi bráðlega.

„Það eru að koma í ljós breytingar eftir hvítasunnuhelgi, þá er þessu skakviðri að ljúka og þessari miklu spennu sem hefur verið hérna í háloftunum sem að orsaka það að það eru lægðir á ferðinni og hafa verið að blása vindar og náð niður eins og við höfum heldur betur orðið vör við síðustu tvo sólarhringa. Það eru allar líkur á því að það slakni á þessu eftir helgina og verði hæglátara veður og svona meira í takt við það sem við tengjum við sumarbyrjun,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvort að landsmenn þurfi að fara að búa sig undir sorg vegna sólarleysis í sumar segir Einar það vera full djúpt í árina tekið. Hann þori þó illa að fara með einhverjar fullyrðingar því betri gögn verði fáanleg í byrjun næsta mánaðar.

„Spálíkönin gera ráð fyrir því að þetta sé allt að færast til betri vegar og þessum leiðindakafla sé að ljúka. Það hefur þó ekki verið neitt sérstaklega kalt, það hefur oft verið kaldara í áliðnum maí, þá með norðan áttum en það er búið að vera óskaplega skakviðrasamt og sviptingar sem minna frekar á haustið en vorin,“ segir Einar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert