TikTok kyrkislangan ólögleg

Kyrkislangan í TikTok myndbandinu ólögleg.
Kyrkislangan í TikTok myndbandinu ólögleg. Samsett mynd

Myndband samfélagsmiðlastjörnunnar Ólafs Jóhanns Steinssonar af íslenskri kyrkislöngu hefur vakið mikla athygli, en það að eiga kyrkislöngu er ólöglegt á Íslandi. Frá 9. áratug síðustu aldar hefur ríkt bann við innflutningi skriðdýra og bendir það til að slangan í myndbandinu hafi verið flutt inn til landsins með ólögmætum hætti, en eigandi slöngunnar kveðst hafa fengið hana á Facebook.

Bannið byggist á alvarlegum sjúkdómstilfellum af völdum salmonellusmits sem dýr af þessu tagi geta borið með sér. Samkvæmt vef Matvælastofnunar ber þess vegna að farga og eyða skriðdýrum sem finnast á Íslandi af öryggisástæðum. Öðru hvoru vaknar umræða um hvort endurskoða eigi bannið en á vef Matvælastofnunar er greint frá því að eins og staðan er í dag væri óábyrgt að mæla með slíkum innflutningi án undangengis áhættumats með tilliti til smits. 

Svona mál kærð til lögreglu

Í samtali mbl.is við Þóru Jónasdóttur, sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun, segir hún að bannið byggist ekki eingöngu á áhættu á salmonellusýkingu, heldur einnig bakteríum, veirum og sníkjudýrum sem geta borist milli skriðdýra og mannfólks. Þar að auki tekur hún fram að bannið snúi líka að velferð dýranna. Við viljum auðvitað, og erum stöðugt að benda á, að það verður líka að skoða velferð þessara dýra  hvort hægt sé að tryggja að ummönnun og aðbúnaður þessara dýra séu ásættanleg með tilliti til velferðar þeirra,” segir hún.

Þóra greinir frá  í málum sem þessum sendi stofnunin kæru til lögreglu sem tekur þá við rannsókn málanna. Þóra gefur ekki upp hvort þetta tiltekna mál hafi komið upp á borð hjá stofnuninni en tekur þó fram árlega berist um 10 ábendingar um mál þar sem grunur leikur á ólöglegum innflutningi framandi dýra. Aðspurð hvort grípa skuli til aðgerða í þessu tiltekna máli segir hún að málið fari bara í „þetta hefðbundna ferli sem svona mál fara í hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert