Vitnisburði hjúkrunarfræðings og samstarfskvenna ber ekki saman

Aðalmeðferðin mun standa yfir fram á föstudag. Steina sést hér …
Aðalmeðferðin mun standa yfir fram á föstudag. Steina sést hér fyrir miðri mynd mæta í réttarsal í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalmeðferð í máli Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðings sem er ákærð fyrir að hafa orðið sjúklingi að bana með því að þvinga ofan í hana næringardrykk, sem varð til þess að hún kafnaði, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Framburði Steinu ber ekki saman við vitnisburð þriggja samstarfskvenna hennar.

Sú ákærða var fyrst til að gefa skýrslu í morgun, en dómarar í málinu eru Sigríður Hjaltested, Björn Bergsson og Gísli Engilbert Haraldsson, bráðalæknir, en hann hefur verið skipaður dómari með sérþekkingu. 

Eini hjúkrunarfræðingurinn á vakt 

Í skýrslu sinni kveðst Steina hafa verið eini hjúkrunarfræðingur á vakt, með þremur nýjum og óreyndum starfsmönnum. Samkvæmt reglum eiga að vera tveir hjúkrunarfræðingar á vakt, en ásamt Steinu voru sjúkraliði, ráðgjafi og sjúkraliðanemi.

Sjúklingurinn, sem var kona um sextugt, hafi verið bráðveik af lungnabólgu, á fljótandi fæði og þurft yfirsetu, en að sögn Steinu hefði sjúklingurinn ekki átt að vera á móttökudeild í slíku ástandi.

Dómsalur var þétt setin við aðalmeðferð málsins í dag.
Dómsalur var þétt setin við aðalmeðferð málsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir sjúklinginn hafa verið á fljótandi fæði

Steina segir það hafa komið skýrt fram við vaktaskipti, bæði munnlega og skriflega að sjúklingurinn  hafi verið á fljótandi fæði, en engu að síður hafi hún verið kölluð inn í herbergi sjúklingsins af samstarfskonu, þar sem hún kom að sjúklingnum í liggjandi stöðu og matur stóð í henni.

Steina kveðst þá hafa sett hana í sitjandi stöðu og bankað í bak hennar þar til grænmetisbiti hrökk upp úr sjúklingnum. Hún bar þá glas með næringardrykk að vörum hennar og bað hana um að drekka og segir hana hafa gert það.

Að sögn Steinu var henni þá létt um stund þar til vökvinn tók að leka úr munni sjúklingsins, en þá hafi orðið skýrt að eitthvað bjátaði á. Læknir var kallaður til og endurlífgun hafin, en sjúklingurinn var úrskurðaður látin eftir einhverja stund. 

Segja Steinu hafa helt tveimur drykkjum í munn sjúklingsins

Steinu og samstarfskonum hennar þremur, ber ekki saman um atburðarrás kvöldsins. Samstarfskonur hennar segja það ekki hafa komið fram á fundi að sjúklingur væri á fljótandi fæði. Matur sem pantaður var fyrir hana var færður henni, en hann var í föstu formi á bakka merktum sjúklingnum. 

Steina heldur því fram að hún hafi haft eina flösku af næringardrykk með inn í herbergið, þegar hún var sótt af samstarfskonu sinni til að líta á sjúklinginn. Hún hafi hellt honum í glas og beðið sjúklinginn að fá sér að drekka og sjúklingurinn hafi tekið nokkra sopa. 

Samstarfskonur hennar þrjár halda því hins vegar allar fram að Steina hafi haft tvo drykki meðferðis. Allar segja þær einnig að hún hafi ekki boðið sjúklingnum að drekka, heldur haldið um kjálka hennar og helt drykknum beint í munn hennar. 

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins, við upphaf aðalmeðferðar í morgun.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins, við upphaf aðalmeðferðar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjúklingurinn gerði stopp-merki

Sjúklingurinn hafði að sögn vitnanna ítrekað borið fyrir sig hendur til að gefa stopp-merki og fært höfuð til að forðast drykkinn en Steina hafi haldið áfram. Tvö vitnanna segja sjúklinginn hafa misst þvag og saur og síðar misst meðvitund. 

Þá kváðust samstarfskonur Steinu allar hafa gert athugasemdir við aðförina og ýmist sagt að þær héldu að sjúklingurinn væri hættur að anda eða vera að deyja.

Steina hafði beðið eina þeirra að setjast fyrir aftan sjúklinginn til að halda henni sitjandi á meðan hún gaf henni drykkinn. Þá hafi önnur þeirra verið beðin um að halda höndum sjúklingsins föstum á meðan Steina helti drykkjunum upp í hana. Önnur samstarfskonan kveðst hafa yfirgefið vettvang þar sem hún hefði ekki getað horft upp á aðför Steinu að sjúklingnum.

Vitni segja sjúklinginn þá hafa misst meðvitund og lækni verið kallaðan til. Samkvæmt vitnisburði hófst Steina þá við að klæða sjúklinginn úr að neðan og eitt vitnanna kvaðst hafa séð hana fleygja buxum og bleyju sjúklingsins undir rúm. Annar hjúkrunarfræðingur sem kom að atvikinu eftir að endurlífgun hófst kvaðst einnig hafa sé buxur og bleyju sjúklingsins úti í horni herbergisins. 

Læknir segir aðkomu hafa verið furðulega 

Læknir sem var kallaður til bar einnig vitni í málinu, en hún segir aðkomu hafa verið furðulega. Starfsmennirnir fjórir hafi allir setið við rúmstokkinn með sjúklingnum og það í raun tekið hana smá tíma að átta sig á hvað væri á seyði. 

Hún hafi fyrirskipað að endurlífgun yrði hafin og hafði athygli á því. Hún kveðst hafa tekið eftir því að föt sjúklingsins voru fjarlægð. Spurð segir hún það ekki hefðbundið ferli að fjarlægja föt sjúklingsins á þeim tíma. 

Harkaleg og ekki allra

Þau vitni sem áður höfðu reynslu af störfum með Steinu sögðu hana geta verið harkalega, en ein samstarfskona hennar, sem var viðstödd við atvikið, sagði hana hafa verið mjög harkalega við sjúklinginn og æpt á hana. Önnur sagði hana einnig ítrekað hafa æpt á sjúklinginn og gengið mjög harkalega að henni við að koma drykkjunum ofan í hana. 

Annað vitni sagði í skýrslu lögreglu að hún væri almennt kurteis og almennileg, en gæti verið hranaleg við sérstaklega erfiða sjúklinga. Deildarstjóri sem einnig bar vitni í málinu sagði Steinu ekki vera allra, en í uppáhaldi margra og ágætis hjúkrunarfræðing. 

Tvær samstarfskonur Steinu kváðust hafa heyrt Steinu greina frá atburðarás við lögreglu, stjórnendur deildarinnar og prest sem veitti sálargæslu, en þær hafi ekki talið hana greina þar rétt frá. Önnur þeirra kvaðst hafa sagt Steinu að hún óttaðist að hún hefði brugðist rangt við, en að Steina hafi þá sagt: „Þú getur ekki hafa gert neitt vitlaust, því þá myndi það þýða að ég hafi gert eitthvað vitlaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert