Andlát: Páll Sigurjónsson verkfræðingur

Páll Sigurjónsson.
Páll Sigurjónsson.

Páll Sigurjónsson, fv. framkvæmdastjóri Ístaks, lést þriðjudaginn 23. maí á 92. aldursári.

Páll fæddist í Vestmannaeyjum 5. ágúst 1931. Foreldrar hans voru þau sr. Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Reykjavík, og Þórunn Eyjólfsdóttir Kolbeins húsmóðir.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 hóf Páll nám í verkfræði og lauk prófi í byggingarverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1959. Að námi loknu vann hann á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og hjá flugher Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli. Árið 1961 hóf Páll störf hjá danska verktaka- og verkfræðifyrirtækinu E. Pihl & Søn A/S og vann þá m.a. í Færeyjum þar sem hann stýrði framkvæmdum við gerð fyrstu vegganganna á eyjunum. Frá 1968 til 1970 var Páll yfirverkfræðingur hjá Fosskrafti sf. við Búrfellsvirkjun. Hann stofnaði ásamt öðrum fyrirtækið Ístak sem um tíma var stærsta verktakafyrirtæki landsins. Umsvif þess náðu einnig út fyrir landsteinana, m.a. með viðamiklum framkvæmdum við jarðgangagerð í Noregi og framkvæmdum á Grænlandi. Páll var framkvæmdastjóri Ístaks til ársins 2003 og starfandi stjórnarformaður allt til starfsloka 2006.

Páll Sigurjónsson sat í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands um árabil og var formaður þess í sjö ár. Hann var stjórnarformaður Útflutningsráðs Íslands í áratug, sat um skeið í samstarfsnefnd norrænna byggingarverkfræðinga, var fulltrúi Íslands í ráðgjafanefnd EFTA í sjö ár og sat í framkvæmdaráði Evrópusambands vinnuveitenda. Páll átti þátt í stofnun landsnefndar Alþjóðaverslunarráðsins og sat í ýmsum alþjóðlegum nefndum um mannvirkjagerð. Páll sat í stjórn Ístaks frá stofnun fyrirtækisins 1970, var stjórnarformaður Fossvirkis frá 1978, var um tíma stjórnarformaður Núps og Vesturíss og sat í stjórn E. Pihl & Søn A/S frá 1989. Páll var ræðismaður Belgíu á Íslandi um árabil. Hann gekk til liðs við Rótarýklúbb Reykjavíkur 1979 og var varaforseti klúbbsins um skeið og síðar forseti hans.

Páll var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1987, var handhafi riddarakross hinnar konunglegu sænsku Norðurstjörnu og var sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1993.

Páll lætur eftir sig fjögur börn, 13 barnabörn og sex barnabarnabörn. Eftirlifandi eiginkona Páls er Sigríður Gísladóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka