Konunni, sem lést á geðdeild þann 16. ágúst 2021, hafði verið neitað um pláss á lyflækningadeild eftir að hún greindist með lungnabólgu og var því send aftur á geðdeild. Deildin var að sögn starfsmanna undirmönnuð og ekki í stakk búin að annast svo líkamlega veikan einstakling.
Annar dagur í aðalmeðferð máls hjúkrunarfræðingsins Steinu Árnadóttur fór fram í dag. Steina er ákærð fyrir að verða sjúklingnum sem um ræðir að bana með því að þvinga ofan í konuna næringardrykk sem varð til þess að hún kafnaði.
Sjúklingurinn var lagður inn á geðdeild en mældist með hita og hún var mjög veik um morguninn þann 16. ágúst. Var tekin ákvörðun um að senda hana á bráðamóttöku og mælst til þess að hún yrði lögð inn á lyflækningadeild.
Læknir á bráðavakt segir hana hins vegar hafa kunnað illa við sig á bráðavaktinni, hún hafi verið óróleg og óskað þess að fara heim. Sagði læknirinn hana hafa átt erfitt með allan þann ys og þys sem er á bráðavakt og sagt að hún vildi frekar deyja en að vera þar. Vegna ástands hennar hafi hún þurft yfirsetu en bráðavakt hafi ekki úrræði til þess vegna anna.
Hún var ekki talin bráðveik en fékk sýklalyf ásamt vökva í æð áður en hún var send aftur á geðdeild. Læknir og hjúkrunarfræðingar á geðdeildinni óskuðu þá eftir skýrum fyrirmælum um umönnun hennar þar sem starfsmenn þeirra væru ekki vanir að annast svo líkamlega veika sjúklinga.
Samkvæmt bæði lækni og hjúkrunarfræðingi af dagvaktinni voru þar skýr fyrirmæli um að lífsmörk sjúklings yrðu skoðuð á klukkutíma fresti og að hún skyldi einungis fá fljótandi fæði.
Starfsmenn geðdeildarinnar sem voru á kvöldvakt þegar sjúklingurinn lést hafa allir borið vitni um að þeir hafi engin fyrirmæli fengið um að sjúklingurinn væri á fljótandi fæði. Ákærða í málinu ber hins vegar fyrir sig að hún hafi fengið fyrirmæli um það og þess vegna gefið sjúklingnum næringardrykk þegar matur, sem henni var færður, stóð í henni.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, Sigríður Gunnarsdóttir, bar einnig vitni í málinu og sagði deildina hafa mælst á rauðu stigi á morgunvaktinni, samkvæmt hjúkrunarþyngdarmælingu sem gerð er á morgunvöktum. Ekki gilda nein lög um mönnun á hjúkrunarvöktum en spítalinn hefur sett sér viðmið varðandi mönnun eftir álagi á deildum.
Ekki er gerð mæling á kvöldvöktum en deildin mældist á rauðu stigi á morgunvaktinni. Mælingin tekur mið af hjúkrunarþörfum sjúklinga og fjölda starfsmanna en rauð mæling sýnir fram á að mönnun sé ófullnægjandi fyrir þau hjúkrunarverkefni sem sinna þurfi á deildinni.
Hún kvaðst ekki efast um að líkamleg veikindi sjúklings hafi aukið álagið á deildinni um kvöldið, enda sé ekki gert ráð fyrir svo líkamlega veikum einstaklingum á geðdeild. Ekki séu deildir hér á landi sem eru bæði fyrir andlega og líkamlega veika.
Vitnið sagðist því telja ekki ólíklegt að hefði mæling verið gerð fyrir kvöldið hefði hún líka reynst rauð, þar sem hjúkrunarþarfir þessa tiltekna sjúklings voru talsvert meiri en vaninn er á geðdeild.
Sigríður og fleiri sem báru vitni um mönnun deildarinnar töldu nokkra þætti spila inn í mönnunina, þar á meðal kórónuveirufaraldurinn, sumarfrí og styttingu vinnuvikunnar.
Hjúkrunarfræðingar af morgunvakt báru einnig vitni um það að sjúklingurinn hefði verið mjög líkamlega veikur. Hún segir sjúklinginn hafa verið sendan á bráðamóttöku um morguninn og hafi hún verið send til baka áður en vakt hjúkrunarfræðingsins lauk. Hún segir það hafa komið örlítið á óvart en í raun ekki vegna andlegs ástands konunnar.
„Það eru ekki endilega fordómar. Fólki finnst bara erfitt að hafa fólk sem er ekki heilt á geðinu, hreint út sagt.“
Þá kvaðst hún muna að Steina hafi beðið sig um að vera áfram um kvöldið þegar vaktaskipti áttu sér stað. Hún hafi litið á töfluna yfir starfsmenn vaktarinnar og séð að það var „ný, ný og nemi“ og skilið áhyggjur Steinu, en tjáð henni að hún gæti ekki verið hjá henni um kvöldið. Hún kvaðst ekki hafa verið í standi til að taka að sér tvöfalda vakt en óttaðist einnig um vinnuöryggi þeirra beggja.
Hún kvaðst hafa sagt við Steinu að þær yrðu báðar reknar ef hún tæki á sig aukavakt án samráðs við stjórnanda og sagði í skýrslu sinni „stefnan var slík að það átti ekki að manna of mikið.“