„Skákmenn ekkert endilega gáfaðir“

Friðrik Ólafsson og Vignir Vatnar Stefánsson eru annálaðir skákmenn og …
Friðrik Ólafsson og Vignir Vatnar Stefánsson eru annálaðir skákmenn og Vignir er barnabarnabarnabarn Péturs Zóphóníassonar, fyrsta Íslandsmeistarans í skák. mbl.is/Arnþór

„Ég er náttúrulega bara enn að átta mig á því að ég sé orðinn stórmeistari, þetta réðst bara í blálokin,“ segir Vignir Vatnar Stefánsson, nýbakaður stórmeistari í skák, í samtali við mbl.is en Vignir tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn eftir æsispennandi bráðabana í Landsliðsflokki Skákþings Íslands í kvöld.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég bara hafði þetta að lokum,“ segir Vignir og er í framhaldinu spurður hvort hann hafi reiknað með þessum árangri. „Já já já, ég stefni alltaf á fyrsta sætið, á maður að stefna á eitthvað annað?“ svarar hann án þess að hugsa sig um.

Vignir kveðst hafa stundað taflið frá fimm eða sex ára aldri og er enda ekki illa í ætt skotið, langalangafi hans var Pétur Zóphóníasson, fyrsti Íslandsmeistarinn í skák árið 1913. „Það er gaman að þetta gerist svo hjá mér 110 árum seinna,“ segir meistarinn.

Vignir Vatnar á Reykjavíkurskákmótinu árið 2011.
Vignir Vatnar á Reykjavíkurskákmótinu árið 2011. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hvernig finnst þér staða skákarinnar vera í íslensku samfélagi í dag?

„Það er blússandi áhugi fyrir skák á Íslandi í dag sem er gjörsamlega frábært. Við vorum með marga unga og efnilega skákmenn á mótinu í dag og nú stefni ég bara á að vera góð fyrirmynd,“ svarar Vignir.

Stefnir hátt

Hann segir það algjörlega upp og ofan hvernig fólk detti inni í skákina. „Skák er ekkert fyrir alla, einbeitingin sem hún krefst er ekki eitthvað sem hver sem er getur tileinkað sér en ef maður teflir í eitt-tvö ár verður maður háður skák, einn félagi minn sagði við mig að það væri ekki hægt að hætta í skák eftir að maður byrjaði,“ segir Vignir.

Vignir Vatnar Stefánsson við keppni á EM 2023 í Serbíu …
Vignir Vatnar Stefánsson við keppni á EM 2023 í Serbíu í mars. Ljósmynd/EICC2023

Fram undan hjá honum er að tefla á eins mörgum mótum erlendis og hann getur, meðal annars í Tékklandi í sumar með sterkum íslenskum ungmennum. „Maður stefnir auðvitað bara hátt þar.“

En hvernig verður maður góður í skák, hver er leyndardómurinn?

„Ja, ef maður byrjar ungur hefur maður alltaf visst forskot en skákmenn eru ekkert endilega gáfaðir, ég þekki fullt af skákmönnum sem eru ekkert gáfuðustu menn í heimi,“ segir Vignir og hlær við, „það er erfitt að útskýra þetta, þú ert kannski með einhvern hæfileika í þessu, einhvern skarpleika, er það ekki orð? Ef maður ætlar að vera virkilega góður þarf maður að hafa hæfileika en annars geta allir orðið góðir í skák. Þú verður bara að vera tilbúinn að leggja vinnuna á þig, þá eru engin takmörk,“ heldur hann áfram.

Æfa skákmenn sig bara með því að tefla endalaust?

„Ég er aðallega bara að skoða byrjanir, ég tefli mikið á netinu og nota ýmis forrit til að skoða byrjanirnar mínar, maður þarf að vera með byrjanirnar á hreinu svo maður sé ekki mát eftir tíu-fimmtán leiki,“ er svarið.

Sem leiðir okkur auðvitað að lokaspurningu spjallsins, hver er uppáhaldsbyrjun Vignis?

„Það er Catalan-byrjunin,“ svarar Vignir, heitin eftir hinu spænska Katalóníuhéraði, „það er d4, c4 og g3, peð á d4 og c4 og svo biskupinn á löngu línuna, ég er búinn að tefla þetta af alvöru í tvö ár og það hættir ekki að gefa“ segir Vignir Vatnar Stefánsson stórmeistari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert