Formaður BSRB hefur birt tvo launaseðla til samanburðar á Facebook síðu sinni. Um 45 þúsund króna munur er á laununum fyrir skatt vegna sérstakra aukagreiðslna sem Reykjavíkurborg greiðir. Greiðslum sem BSRB segir Samband íslenskra sveitarfélaga neita að greiða.
Verkfallsaðgerðir BSRB eru nú í fullum gangi og hafa verið síðan þann 15. Maí síðastliðinn. Ekkert þokaðist áfram á fundi á milli BSRB og SÍS hjá ríkissáttasemjara þann 22. maí síðastliðinn. Eftir þann fund sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, „mjög langt“ vera á milli samningsaðila. Annar fundur hefur ekki verið boðaður.
Náist ekki að semja munu 2.500 félagar BSRB í 29 sveitarfélögum leggja niður störf í byrjun júní.
Helstu kröfur BSRB eru þríþættar, þær snúa að því að leiðrétta mismunun varðandi laun fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins fyrir félaga, lyfta lægstu launum og þeirra sem starfa í leikskólum með þjónustu við fatlað fólk og jafna greiðslur til sjóða stéttarfélaganna.
Í Facebook-færslu sinni frá því í dag spyr Sonja einfaldlega hvort að lesendur geti lifað á þeim launum sem launaseðlar leikskólaleiðbeinanda sýni.
„Ef þið skoðið þessa launaseðla fyrir laun í janúar 2023 sjáið þið mat samfélagsins á virði starfa leiðbeinenda á leikskólum. Launin eru þó ögn skárri í Reykjavík heldur en í Kópavogi eða öðrum sveitarfélögum. Þar munar heilum 45 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt (sjá grænu hringina). Það er vegna þess að Reykjavíkurborg greiðir sérstakar aukagreiðslur vegna þessara starfa sem hin sveitarfélögin gera ekki. Og neita að gera. Þau hafa hafnað sjálfsögðum kröfum okkar fólks um sömu laun fyrir sömu störf á leikskólum um landið allt. Gætuð þið lifað af á þessum launum?,“ segir í færslunni.
Mynd af launaseðlunum má sjá hér að ofan.