Fjarðabyggð ætlar að taka afstöðu til þess hvort skammtímaleiga húsa á Stöðvarfirði verði bönnuð öðrum en þeim sem eiga heimilisfesti þar í næstu viku.
Tillaga þess efnis er fram komin eftir úttekt íbúasamtaka Stöðvarfjarðar þar sem kemur fram að rúmlega fimmtungur alls húsnæðis á Stöðvarfirði stendur autt stærstan hluta árs.
Greint var frá á vef Austurfréttar.
Þar segir að sú staða sé uppi í bæjarfélaginu að eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboð.
Á vef Byggðarstofnunar kemur fram að Stöðvarfjörður hóf þátttöku sína í verkefninu Brothættar byggðir í ársbyrjun 2022.
Íbúar völdu því heitið Sterkur Stöðvarfjörður á íbúaþingi. Gert er ráð fyrir að aðkomu Byggðastofnunar að verkefninu ljúki í lok árs 2025.
Í frétt Austurfréttar er rætt við Bjarna Stefán Vilhjálmsson, stjórnarmann í íbúðarsamtökunum, sem segir það skjóta skökku við hve margar íbúðir standi auðar á sama tíma og eftirspurn eftir húsnæði hafi aukist. Sérstaklega með tilliti til þess að bæjarfélagið sé hluti af verkefninu Brothættar byggðir.
Hefur það meðal annars verið rætt hjá samtökunum hvort tímabært sé að setja bann við skammtímaleigu íbúða, annarra en þeirra sem eiga heimilisfesti í bænum. Nokkur ferðaþjónusta er í bæjarfélaginu þar sem meðal annars hið víðfræga steinasafn Petru hefur notið hylli. Einnig er gistiheimilið Saxi opið nær allt árið og á bænum Óseyri innst í firðinum er rekin ferðaþjónusta árið um kring.
Að sögn Þórðar Guðmundssonar, upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar, verður tekin afstaða til þess í bæjarstjórn í næstu viku hvort ástæða sé til þess að setja slíkt bann á en málið er til umfjöllunar hjá fjármálastjóra sveitarfélagsins. Einnig verða skoðaðar aðrar ábendingar íbúasamtakanna. „Erindið frá íbúasamtökunum var sent í heild sinni til úrvinnslu,“ segir Þórður. „Þessu með skammtímaleiguna verður meðal annars svarað þá,“ segir hann að lokum.