Vetrarafkoma Hofsjökuls þetta árið er með slakasta móti og stóð tæpt að sérfræðingar Veðurstofu Íslands kæmust að jöklinum á farartækjum er þeir héldu í mælingarleiðangurinn, þar sem snjólaust var orðið mjög víða um hálendið.
Á vef Veðurstofunnar segir að borað hafi verið í 20 punktum á Sátujökli, Þjórsárjökli, Blautukvíslarjökli og Blágnípujökli, auk punkts á hábungu jökulsins í 1.790 m hæð.
Við boranir kom fljótt í ljós að veturinn hafði verið óvenju snjóléttur, einkum á sunnanverðum jöklinum. Þykkt vetrarlagsins 2022-2023 var undir meðallagi í öllum mælipunktum og nam aðeins 60% af snjóþykkt í vetrarlok 2021-2022.
Snjóþykkt mældist 0,5 metri í um 800 metra hæð neðst á jöklinum, en mest um 5,8 metrar á hábungu jökulsins í tæplega 1.900 metra hæð.
Út frá niðurstöðum má áætla að meðalþykkt vetrarlagsins á jöklinum öllum hafi verið um 2,7 metrar, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Að teknu tilliti til óvissuþátta er vatnsgildi vetrarafkomunnar jafnframt metið 1,27 ± 0.15 m, sem er um 75% af meðaltali áranna 1989-2022. Eru varla dæmi um jafn litla ákomu á jökulinn frá upphafi mælinga. Þó mældist hún ívið lægri í vorferðum 2001 og 2010.
„Ef leysing verður að jafnaði 1,3 m (vatnsgildi) nægir það til að ársafkoman verði neikvæð. Leysing hefur aðeins tvívegis mælst minni en 1,3 m (sumrin 1992 og 2015) og meðaltalið er 2,1 m. Verður því að teljast mjög líklegt að rýrnun jökulsins muni halda áfram á þessu ári, því skv. langtímaspám er útlit fyrir að sumarið verði í hlýrra lagi,“ segir á vef Veðurstofunnar.