„Vont fyrir viðskiptin að drepa fólk“

Daan van Der Gouwe er vímuefnagreinandi hjá hollenska ríkinu.
Daan van Der Gouwe er vímuefnagreinandi hjá hollenska ríkinu.

Hollenskur fíkniefnagreinandi telur að fækka megi dauðsföllum á Íslandi með því að taka  upp skimun fíkniefna á götunni. Skimuninni er ætlað að greina efni sem þykja hættulegri en önnur og hvetja neytendur og fíkniefnasala til að taka þau úr umferð.

Í Hollandi hefur verið komið upp 33 ríkisreknum greiningarstöðvum þar sem fíkniefni eru greind með tilliti til þess hversu hættuleg þau eru og er Daan van Der Gouwe, vímuefnagreinandi, þess fullviss að dauðsföllum fækki ef sambærilegum úrræðum verður beitt hérlendis. Hann starfar við greiningu fíkniefna og hélt erindi fyrir Matthildarsamtökin, samtök um skaðaminnkun, í gær. 

Fíkniefni eru sum hver blönduð með banvænum efnum sem geta …
Fíkniefni eru sum hver blönduð með banvænum efnum sem geta leitt neytendur til dauða. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan hlynnt framtakinu 

„Með þessu móti geta neytendur vitað hvað þeir eru að fara að innbyrða. Samhliða getum við fylgst með fíkniefnamarkaðnum og því hvaða efni eru á götunni,“ segir Daan.

Neysluskammtar eru ekki ólöglegir í Hollandi óháð því hvert efnið er. Segir Daan að sökum þess finnist neytendum ekkert feimnismál að koma með efnin til að láta greina þau.

„Við erum með samkomulag við lögregluna um að þau fylgist ekki sérstaklega með þeim sem koma. Lögreglan er afar hlynnt því sem við erum að gera,“ segir Daan.

Hefði mátt koma í veg fyrir dauðsföll

Alda lyfjatengdra andláta hefur riðið yfir hérlendis undanfarin misseri og þá sérstaklega upp á síðkastið. Árið 2021 féllu 46 andlát í flokk lyfjatengdra andláta, samkvæmt síðustu tölum landlæknisembættisins. Meðal annars hafa margir látist upp á síðkastið eftir að hafa tekið inn banvæna blöndu kókaíns og fentanýls. Telur Daan að með sambærilegu fyrirkomulagi og er í Hollandi megi leiða líkum að því að hægt hefði verið að koma í veg fyrir hluta dauðsfallanna. 

„Fólk hefur í raun enga hugmynd um hvað það er að taka. Kókaín og fentanýl saman er banvæn blanda og það má ekki gleyma því að fíkniefnasalarnir vilja oftast ekki að þessi efni séu í umferð,“ segir Daan. 

Dauðsföll tíðari í Noregi og í Bretlandi 

Að sögn Daans er erfitt að henda reiður á því út frá gögnunum hvort efnagreiningarstöðvarnar leiði til færri dauðsfalla í Hollandi. Margir falli frá út af fíkn og því sé erfitt að benda á tölfræði í þessum efnum. Hann og hollenska ríkisstjórnin séu engu að síður sannfærð um að framtakið geri gagn.

„Það eina sem við getum bent á að er að dauðsföll Í Hollandi vegna notkunar fíkniefna eru undir meðallagi í samanburði við önnur lönd og mun lægri ef miðað er við lönd eins og Noreg og Bretland þar sem dánartíðni er há,“ segir Daan.

Heróínneysla hefur lengi verið stórt vandamál í Noregi.
Heróínneysla hefur lengi verið stórt vandamál í Noregi. mbl.is/​Hari

Senda út rauða viðvörun

Framtakið hófst fyrir um þrjátíu árum og var þá á höndum einkaaðila sem efnagreindu vímuefni á tónlistarhátíðum. Stjórnvöld komu inn með fjárframlag þegar árangur sást í samanburði við árin á undan.

Daan segir að þegar vart verður við „slæm“ fíkniefni sé allra leiða leitað til að láta fíkniefnasala vita. Bæði í gegnum vefsíður sem eru þekktar fyrir sölu fíkniefna sem og með því að koma skilaboðum á framfæri með öðrum tiltækum leiðum. „Það virkar ekki alltaf þannig að efnin eru tekin úr umferð en það gerir það oft. Þetta snýst um peninga og það er vont fyrir viðskiptin að drepa fólk,“ segir Daan.

Hann segir að tilgangur greininga sé eingöngu að lágmarka áhættu fólks sem neytir fíkniefna. Neysla efnanna er og verður alltaf áhættusöm engu að síður.  Verði vart við „menguð“ fíkniefni sem margir nota er farið í auglýsingaherferðir til að láta neytendur vita.

„Við sendum út skilaboð og köllum þau „rauða viðvörun“. Þannig  segjum við frá tilteknum fíkniefnum sem eru í umferð. Við komum fram í sjónvarpi, útvarpi og auglýsum hér og þar til að koma skilaboðunum til sem flestra," segir Daan.

Hann segir slíkt þó ekki gert þegar um er að ræða lyf sem fáir nota. Í þeim tilfellum sé reynt að koma skilaboðunum til afmarkaðs hóps með öðrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert