„Sem samgönguráðherra hefði ég auðvitað viljað fá miklu meiri peninga og fara í fleiri framkvæmdir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sem boðar 10-14 ný jarðgöng í samgönguáætlun.
Hann segir aðhald í ríkisrekstri ekki hafa of mikil áhrif á samgönguáætlun til langs tíma. Þetta sagði hann í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
Tíu jarðgöng verða í samgönguáætlun og fern önnur til sérstakrar skoðunar.
„Sem sagt fjórtán jarðgöng sem við sjáum fyrir okkur að við getum framkvæmt til næstu þrjátíu ára.“
Hann segir þetta vera „nánast“ öll þau jarðgöng sem hafi verið til umfjöllunar síðustu árin.
Jarðgöng um Mikladal og Hálfdán á sunnanverðum Vestfjörðum séu á þessum lista. Sveitarstjórar þar telja þau lykilinn að farsælli sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.
Blaðamaður spurði hvort aðhaldsaðgerðir ríkisins myndu bitna á samgönguáætluninni.
„Nei við erum kannski meira að láta fyrstu fimm árin í samgönguáætluninni ríma við fjármálaáætlunina. [...] Við verðum að tryggja að farið verði í miklar framkvæmdir á Kjalarnesvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut,“ segir Sigurður.
Hann segir fleiri framkvæmdir munu bætast við á seinni hluta fimm ára áætlunar og síðan á öðru til þriðja tímabili samgönguáætlunarinnar.