Isavia stefnir að uppsetningu á fjarstýrðum flugturni á Reykjavíkurflugvelli. Í framhaldinu er svo stefnt að undirbúningi að fjarstýrðum flugturnum fyrir fleiri áætlunarflugvelli á landinu. Þetta kemur fram á minnisblaði Isavia vegna næstu samgönguáætlunar fyrir árin 2024 til 2038.
Isavia er þegar byrjað að undirbúa breytingu á flugleiðsöguþjónustu Reykjavíkurflugvallar með því að setja upp fjarstýrðan flugturn vegna lélegs ástands á flugturninum á Reykjavíkurflugvelli. „Verið er að ganga frá útboði á myndavélabúnaði og hugbúnaði og gert er ráð fyrir að breytingin verði innleidd á árabilinu 2024-2025,“ segir á minnisblaðinu.
Um töluverða fjárfestingu er að ræða með ljósleiðaravæðingu, fjarstýringu ljósa og uppsetningu myndavéla, masturs o.fl. ásamt sérstöku stjórnherbergi. Er stofnfjárfestingin áætluð um 600 milljónir kr. „Þessi þróun, að flytja flugumferðarstýringu einstakra flugvalla í miðlæga miðstöð, er á fullri ferð bæði á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Árin 2023 og 2024 verður unnið að þarfagreiningu og mótuð framtíðarsýn um hvernig verði hægt að nýta þessa tækni á fleiri áætlunarflugvöllum og að á næsta áratug verði allir áætlunarflugvellir fjarstýrðir frá sameiginlegri miðstöð. Verkefnið mun skila hagræðingu í starfsmannahaldi, aukinni þjónustu og opnar fyrir sólarhringsfjarstýringu á ákveðnum flugvöllum,“ segir á minnisblaði Isavia.
Minnt er á að ríki og borg hafi undirritað samkomulag um að starfsemi Reykjavíkurflugvallar yrði tryggð þar til annað flugvallarstæði væri tilbúið. Undirbúningur að opnun nýs flugvallar taki minnst 25-30 ár og því sé nauðsynlegt að ráðast í endurbyggingu flugstöðvarinnar á vellinum sem þjóni innanlandsflugi næstu þrjá áratugina. Hefur Icelandair lýst vilja til að selja ríkinu núverandi flugstöð og gerir Isavia ráð fyrir að þarfagreining og hönnunarundirbúningur hefjist á næsta ári.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.