„Hún missti bæði kiðin sín í burði en við áttum tvö lömb undan gemlingum sem vantaði móður, svo við gripum þau, klíndum slíminu af kiðunum á þau og það tók ekki nema einn dag að fá geitina til að sættast við að verða fósturmóðir þessara lamba,“ segir Fjóla Veronika Guðjónsdóttir, en geitin hennar, Lady Gaga, býr yfir mikilli móðurást og lætur ekki trufla sig að afkvæmin séu annarrar tegundar en hún sjálf.
„Þetta er í annað skipti sem við bjóðum geit að fóstra lömb og það gekk líka vel í fyrra skiptið. Óvenjumargir gemlingar voru tvílembdir hjá okkur nú í vor, en við viljum síður að þeir gangi með tvö lömb, svo við tókum þessi tvö hvort undan sínum gemlingi. Þau fengu mjólk úr þurrmjólkurfötu með túttum, svokallaðri lambafóstru. Hvíta gimbrin biður reyndar enn svolítið um pela úr okkar hendi, sem er gaman, að þau gleymi okkur ekki alveg strax,“ segir Fjóla sem býr ásamt fjölskyldu sinni á bænum Rauðanesi, rétt vestan við Borgarnes.
„Búskapurinn er hobbí, ég er í fullu starfi sem kennari og auk þess erum við með ferðaþjónustu. Hér er gisting fyrir sjö manns. Við erum með þrjár geitur, fimmtán kindur og tuttugu hross. Við búum á svo fallegum stað og við viljum nýta jörðina til búskapar, þó í smáum stíl sé. Erlendu gestirnir okkar njóta þess flestir að fá að kynnast skepnunum.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.