Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins sem ákærður er fyrir manndráp á sjúklingi á geðdeild, gagnrýndi lögreglu og saksóknara harðlega fyrir að hundsa lykilgögn í málinu og varpa allri ábyrgð af Landspítalanum.
Þetta kom fram á lokadegi aðalmeðferðarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Vilhjálmur fór fram á að hjúkrunarfræðingurinn, Steina Árnadóttir, yrði sýknuð, bæði af ákæru og skaðabótakröfu, en yrði hún sakfelld þá fór hann fram á að dómur yrði skilorðsbundinn og bótakröfur lækkaðar. Sagði hann skjólstæðing sinn með engu móti ábyrgan fyrir dauða sjúklingsins, heldur hafi þvert á móti reynt að bjarga honum.
Þá sagði hann að ákæruvald og rannsóknarlögregla hefðu litið fram hjá lykilgögnum eins og rótargreingu yfirlæknis á LSH, þar sem „Landspítalinn beinlínis játi á sig sök“.
„Mér misbýður stórkostlega það sem ég hef séð í þessari málsmeðferð.“
Sagði hann rannsókn lögreglu frá upphafi hafa verið í skötulíki, en að fyrir liggi greinargerð lögreglu þar sem LSH er sagður hafa réttarstöðu sakbornings, en að þau gögn hafi ekki verið tekin fyrir í málinu, þar sem þau voru ekki talin frumskýrsla í því, heldur greinargerð.
„Er hægt að fela sig á bak við formið? Hvað hefur lögregla og ákæruvaldið að fela í þessu máli?“ spurði Vilhjálmur.
„Ég man ekki eftir máli af þessari stærðargráðu síðustu ár þar sem ekki lá fyrir skýrsla rannsakenda.“
Þá segir hann alfarið hafa verið litið frá ábyrgð sjúkraliðans sem færði sjúklingnum fasta fæðu á bakka, en fyrirmæli höfðu verið gefin um að veita honum einungis fljótandi fæði vegna veikinda hennar og sögu af ásvelgingarhættu.
Frumorsök andlátsins eigi rætur sínar að rekja til rangrar matargjafar, þar sem sjúkraliðinn vanrækti ábyrgð sína og kynnti sér ekki upplýsingar um fæðugjöf. Upplýsingakerfi spítalans lá einnig niðri og fóru upplýsingar um breytingar á fæði sjúklings ekki í gegn. Rangur bakki var því sendur upp á deildina.
Sjúkraliðinn hafi sótt Steinu þar sem eitthvað bjátaði að hjá sjúklingnum eftir að hún gaf henni að borða. Ber Steinu og einni samstarfskonunni saman um að Steina hafi slegið í bak sjúklings og matarbiti hrokkið upp úr henni.
Steina hafi því, að sögn Vilhjálms, komið inn í aðstæður, þar sem annar starfsmaður hafði gert mistök og Steina reynt að bjarga sjúklingnum. Hún hefði talið að gott væri fyrir sjúklinginn að fá sér að drekka ef eitthvað stæði enn fast í vélinda hennar.
Vitnisburði samstarfskvenna Steinu ber ekki saman, að sögn verjanda, um hvort Steina hafi gefið sjúklingnum að drekka úr glasi eða beint úr flöskum. Þær segja þó allar að hún hafi gefið henni tvær flöskur.
Vilhjálmur vísaði til ljósmyndar sem tekin var á vettvangi atviksins og sýndi aðeins eitt glas og eina 125 millilítra flösku. Glasið á myndinni innihéldi enn næringardrykk og því mætti álykta að Steina hefið ekki einu sinni gefið sjúklingnum eina flösku.
Ákæruvaldið hefði að hans mati gjörsamlega litið framhjá sönnunargögnum sem þessum og ábyrgð stofnunarinnar.
Þá segir hann það skýrt að samstarfskonur Steinu hafi breitt frásögnum sínum þar sem þeim komi ekki saman um öll atriði og þær hafi fundað með stjórnendum og presti. „Við höfum séð þetta áður, vitnin hafa talað saman áður en hlustað er á framburð þeirra.“
Þá segir hann lykilgagn í málinu handónýtt vegna hagsmunaárekstra. Lykilgagn í málinu sé krufningarskýrsla sem var unnin af starfsmönnum LSH, sem að sögn verjanda geri gagnið ógilt. Skýrslan færi ábyrgðina alfarið yfir á hjúkrunarfræðinginn með því að fullyrða að dánarorsökin hafi verið köfnun en ekki klósipíneitrun.
Banvænt magn af klósipíni, lyfi við geðklofa, mældist í blóði sjúklingsins en þess má geta að sérfræðingar hafa borið vitni um að mælingar breytist eftir andlát. Einnig hafa sérfræðingar sagt að þó að magnið hafi verið banvænt, breyti það því ekki að það var ekki dánarorsökin, lífsmörk sjúklings hafi mælst góð skömmu fyrir andlát hennar, sem bendi til þess að ekki hafi verið um eitrun að ræða.
Aðalmálsmeðferð er nú lokið og málið dómtekið.