Losnað um hnútinn en langt í land

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, vonast til þess að samingafundur …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, vonast til þess að samingafundur á milli BSRB og SNS verði fljótlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir aðeins hafa losnað um hnútinn í kjaraviðræðum BSRB og SNS. Þó sé enn langt á milli samningsaðila.

„Þetta byrjaði í mjög hörðum hnút og ég myndi segja að það hafi aðeins losnað um hann. Við erum að færast nær hvort öðru en það er því miður enn þá mjög langt á milli,“ segir Sonja Ýr í samtali við mbl.is

Hún segir að samtal sé á milli samningsaðila á milli samningafunda hjá ríkissáttasemjara.

„Vonandi verður samningafundur sem fyrst,“ segir Sonja.

Hún segir verkfallsvörslu hafa gengið vel og nefnir sérstaklega grunnskólana og leikskólana.

„Þetta hefur verið samvinnuverkefni að fólk sé ekki að ganga í störf okkar fólks,“ segir Sonja og bætir við að hún hafi ekki heyrt um nein verkfallsbrot.

Munar um aukagreiðslur

Sonja Ýr birti tvo launa­seðla til sam­an­b­urðar á Face­book-síðu sinni í gær. Um 45 þúsund króna mun­ur er á laun­un­um fyr­ir skatt hjá starfsfólki í leikskólum Reykjavíkur og öðrum sveitarfélögum. 

„Markmiðið með færslunni var að draga fram að það væri munur á launum fólks eftir því hvort það starfar á leikskólum í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum, því það eru aukagreiðslur samkvæmt kjarasamningum fyrir starfsfólk leikskóla hjá Reykjavík sem er ekki hjá hinum sveitarfélögunum og það er hluti af okkar kröfum. Markmiðið var að endurspegla það. Við vorum að horfa á heildarlaunagreiðslurnar fyrir skatt,“ segir Sonja Ýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert