Tjaldar verpa yfirleitt tveimur til fjórum eggjum. Það kom því bræðrunum Markúsi og Jasoni Ívarssonum mikið á óvart þegar þeir fundu fimm eggja tjaldshreiður á jörð Markúsar í Flóahreppi, en þar hafa tjaldar lengi hreiðrað um sig á þessum tíma árs.
Tjaldurinn er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er hávaðasamur og félagslyndur fugl, er að mestu leyti farfugl en en um 5.000 til 10.000 fuglar hafa vetursetu við strendur Íslands. Tjaldurinn verpir víða, einkum í möl og sandi en einnig við ár og vötn. Varp- og ungatímabil tjaldsins hefst í mars og lýkur í ágúst og er því í fullum gangi um þessar mundir. Þetta kemur fram á fuglavef Menntamálastofnunar sem heldur úti alhliða fræðsluvef um íslenska fugla.
Markús Ívarsson, bóndi á Vorsabæjarhóli í Flóahreppi og áhugamaður um fugla, segir tjaldinn hafa verið tíðan gest á jörð sinni árum saman. Hann segist aldrei áður hafa séð hreiður með fimm eggjum og hlýtur fundurinn því að þykja nokkuð merkilegur. Markús bætir því við að fyrir nokkrum árum síðan hafi fundist nokkur hreiður með fjórum eggjum, þó sé algengast að tvö eða þrjú egg séu í hverju hreiðri.
Að sögn Markúsar verpa tjaldar oft á svipuðum slóðum ár eftir ár, en þó geti verið erfitt að finna hreiður þeirra. Þá segist Markús hafa orðið var við hreiðrið með eggjunum fimm fyrir einskæra tilviljun þegar honum varð litið út um húsglugga nýlega. Hafi þeir Jason, bróðir hans, ákveðið að kanna hreiðrið og blasti þá við þeim þessi óvænta sjón. Markús hyggst fylgjast vel með þróun mála hjá þessum fiðraða og félagslynda leigjanda á næstunni sem lengi hefur hreiðrað um sig við Vorsabæjarhól.