Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett heildarreglugerð sem kveður á um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara, fólks sem rekur uppruna sinn til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss, um störf í íslensku heilbrigðiskerfi.
Eru breytingar á fyrri reglugerð til þess fallnar að skýra og einfalda meðferð umsóknanna og gera ferlið skilvirkara, meðal annars með því að í upphafi umsóknarferlis teljist nægilegt að leggja fram ráðningarsamning sem má innihalda fyrirvara um veitingu starfsleyfis.
Þá muni heilbrigðisstofnanir geta sótt um tímabundin starfs- og sérfræðileyfi fyrir hönd sérfræðinga sem brýn þörf teljist á að fá til starfa.
Enn fremur verður heimilt að forgangsraða umsóknum um starfsleyfi í stéttum þar sem mikill skortur ríkir á starfsfólki hérlendis. Verður embætti landlæknis jafnframt heimilt að forgangsraða umsóknum þeirra sem þegar verða komnir til landsins, umfram þá sem enn eru erlendis.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.