Sauðárkróksbakarí opnaði afgreiðslu sína aftur í gæmorgun, eftir um tíu daga stopp. „Ég hef fengið ómetanlegan stuðning frá samfélaginu öllu og ýmsum sem eru lengra frá, og fyrir það er ég óendanlega þakklátur,“ segir Snorri. Hann segir tjónið verulegt og gæti hlaupið á 30 til 40 milljónum króna, en hann sé þokkalega tryggður og fái því tjónið bætt að verulegu leyti, þó ýmislegt standi alltaf út af.
Eldsnemma að morgni 14. þessa mánaðar var Snorri Stefánsson, eigandi bakarísins, einn við vinnu þegar rólegu umhverfi hans var raskað hastarlega er bíl var ekið inn um suðurvegg fyrirtækisins og inn í miðja afgreiðslu.
Snorri, sem keypt hafði bakaríið og fengið það afhent 1. september á síðasta ári, stóð nú frammi fyrir gjörónýtu afgreiðslurými og feiknatjóni. Hann segir að þegar orðið var ljóst hvernig komið var hafi hann tekið sér dag í að skoða málið og gera upp við sig hvernig mætti bregðast við.
Í stuttu máli má segja að sannanlega hafi verið tekið til höndum, því nú hefur bakaríið verið opnað aftur, að vísu með bráðabirgðainnréttingum, en flest er komið í fyrra horf.
„Það er smá hökt enn þá,“ segir Snorri, „en þetta er allt að koma og við fáum nýjar innréttingar í haust.“
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.