Þekktu mjaldrasysturnar í Vestmannaeyjum, þær Litla-Hvít og Litla-Grá, voru í gær fluttar í innilaug vegna veikinda hjá annarri þeirra. Litla-Grá hafði sýnt væg sjúkdómseinkenni undanfarna daga en í gær var metið að eitthvað alvarlegra væri að hrjá hana og hún flutt úr kví þeirra systra í innilaug til frekari skoðunar.
„Það voru teknar alls konar prufur til að athuga hvernig staðan væri og það kom í ljós að hún væri mjög veik. Hún væri með magasár og það var ekki hægt, aðstæðna vegna, að sinna því úti,“ segir Þóra Gísladóttir, rekstrarstjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.
Hún segir mjaldrasysturnar mjög samrýndar og óaðskiljanlegar, en þess vegna hafi Litla-Hvít líka verið flutt í innilaugina. Hún bætir því við að „Litla-Hvít yrði bara hrædd að vera þarna ein úti“.
Í gær gafst veðurgluggi til að flytja mjaldrana og voru allir tiltækir kallaðir út til að hjálpa til.
„Þetta fór rosalega vel. Við fengum alveg ofboðslega mikið af sjálfboðaliðum hérna frá Eyjum. Björgunarsveitin kom, og vinir okkar og ættingjar. Við vorum með heilan her hér sem hjálpaði okkur að flytja þær,“ segir Þóra og bætir við að við flutning sem þennan þurfi alla mögulega aðstoð.
Að sögn Þóru er Litla-Grá öll að braggast.
„Maður sér að henni er farið að líða betur, þær gefa frá sér svo mikið af hljóðum, en hún var hætt að gera það,“ segir Þóra.
Hún segir stefnuna að hleypa systrunum aftur í afmarkaða sjókví sína í Klettsvík, en enn sem komið hefur ekki reynst unnt að meta hvenær það verði þar sem Litla-Grá sé enn á batavegi. Þangað til sé hægt að skoða systurnar í innlaug á Beluga Whale Sanctuary í Vestmannaeyjum.