Þótt farþegar skemmtiferðaskipa séu aðeins brot af þeim mikla fjölda ferðafólks sem sækir Snæfellsnes heim á hverju ári, reyna skipadagar þegar stór skemmtiferðaskip eru í höfn í Grundarfirði, á þolmörk vinsælla ferðamannastaða svæðisins. Unnið er að greiningu á þolmörkum og gæðum við móttöku ferðafólks í verkefni sem sveitarfélög, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og fleiri, vinna saman að.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, segir að áætla megi að allt að 45 þúsund manns komi til Grundarfjarðar með skemmtiferðaskipum sem þar hafa viðdvöl í sumar. Til viðbótar hafi minni skip viðkomu í Stykkishólmi og einhver skip sendi farþega í land á Arnarstapa. Ferðafólkið fær þjónustu í Grundarfirði en margir kaupa sér ferðir á vinsælustu ferðamannastaði Snæfellsness.
Björg segir áætlað að allt að milljón ferðamenn komi á Snæfellsnes á ári. Farþegar skemmtiferðaskipanna eru því lítið hlutfall af heildinni, en Björg bendir á að álagið geti orðið mikið á helstu áningarstöðum á komudögum skemmtiferðaskipanna.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.