Samdráttur í sölu hjá ÁTVR á síðasta ári

Alls komu 5,2 milljónir viðskiptavina í Vínbúðirnar í fyrra. Salan …
Alls komu 5,2 milljónir viðskiptavina í Vínbúðirnar í fyrra. Salan dróst talsvert saman frá fyrra ári en afkoma var þó umfram áætlun. mbl.is/Hákon Pálsson

Sala á áfengi dróst saman um 8,4% í Vínbúðunum á milli ára. Afkoma ÁTVR var þó umfram áætlun og nam hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári 877 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2022.

Í skýrslu forstjórans, Ívars J. Arndal, kemur fram að rekstrarumhverfi ÁTVR hafi í fyrra verið eins og það var á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn. „Þróunin í sölu og fjölda viðskiptavina er í takt við áætlanir þegar tekið er tillit til mikillar sölu í kjölfar samkomu- og ferðatakmarkana á árunum 2020 og 2021,“ segir í skýrslunni, en alls fengu rúmlega 5,2 milljónir viðskiptavina þjónustu hjá Vínbúðunum í fyrra. Viðskiptavinum fækkaði um 5,3% á milli ára á sama tíma og sala áfengis í lítrum talið minnkaði eins og áður sagði. Eignir námu 8.833 milljónum króna, skuldir voru 1.886 milljónir og eigið fé nam 6.947 milljónum í árslok 2022. Greiddur var 500 milljóna króna arður í ríkissjóð.

Áfengi var selt fyrir 36,5 milljarða króna, með virðisaukaskatti. Sala tóbaks nam 10,1 milljarði, með virðisaukaskatti. Tóbaksgjald sem ÁTVR innheimtir nam 4.695 milljónum á árinu 2022 og lækkaði um 793 milljónir frá árinu á undan. Sala vindlinga í magni dróst saman um 14,7%. Sala vindlinga nam 747,5 þúsund kartonum og af vindlum seldust 3.567 þúsund stykki. Selt magn neftóbaks var 12.584 kíló og var samdráttur 24% frá fyrra ári.

Nán­ar er fjallað um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert