Snýst um að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar

Áhöld eru um það hvort byrja eigi á T laga …
Áhöld eru um það hvort byrja eigi á T laga göngum, svokallaðri Fjarðaleið sem tengir Hérað, Neskaupstað og Seyðisfjörð um Mjóafjörð, eða hvort byrja eigi á Fjarðarheiðargöngum sem tengja eingöngu Egilsstaði og Seyðisfjörð. mbl.is/Sigurður

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir eðlilegt að velta fyrir sér forgangsröðun jarðganga á Austurlandi, í ljósi þess að ár eða áratugir eru í að farið verði í næsta fasa jarðgangagerðar á Austurlandi. 

Eins og staðan er núna eru Fjarðarheiðargöng á samgönguáætlun en Jón hefur viðrað hugmyndir um að hefja framkvæmdir á Fjarðaleið út frá sjónarmiðum um almannavarnir. Fyrst og fremst sé mikilvægt að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar hvort sem það verði til suðurs um Mjóafjörð eða til norðurs á Hérað. 

Hann segir að niðurstaða rýnihóps um almannavarnir sem settur var á laggirnar eftir snjóflóðatíð í mars, liggi ekki að baki þeirri hugmynd að setja Fjarðaleið í forgang umfram það að byrja á Fjarðarheiðargöngum.

„Ég er einfaldlega að benda á það að út frá almannavarnasjónarmiðum þurfi að taka þetta atriði til skoðunar,“ segir Jón.

Jón Gunnarsson ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Jón Gunnarsson ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deildar meiningar fyrir austan

Hann segir styttast í fyrsta fasa jarðgangagerðar á Austurlandi og vill ljósi stöðunnar huga að forgangsröðun.

„Um þetta eru deildar meiningar fyrir austan og við erum að vekja athygli á þessu og að taka þurfi þetta til skoðunar,“ segir Jón.

Árið 2017 þegar Jón var ráðherra samgöngumála lagði starfshópur á hans vegum til hringtengingu á Austurlandi þannig að í framtíðinni myndu jarðgöng tengja Egilsstaði, Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Neskaupstað í fjórum jarðgöngum í heild. 

Fjarðaleiðin ekki mikið dýrari 

„Eins og staðan er í dag (á samgönguáætlun) eru Fjarðarheiðargöng næsta stóra framkvæmd í jarðgangagerð. Seinni hluti þeirra framkvæmdar er ekki á áætlun á næstu árum og jafnvel ekki á næstu áratugum. Ef af Fjarðarheiðargöngum verður, ertu bara með einstefnugöng á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Menn þurfa að meta það hvort það sé besta forgangsröðunin. Við þurfum að meta það út frá almannavörnum hvort það borgi sig frekar að fara Fjarðaleiðina en að gera eingöngu Fjarðarheiðargöng. Á sínum tíma var það metið sem svo að Fjarðaleiðin væri ekki miklu dýrari en Fjarðarheiðargöngin ein,“ segir Jón.

Snýst um rof á einangrun 

Hann segir að í sínum huga þurfi að huga fyrst og fremst að því að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar, en hvort það verði gert til norðurs upp á Hérað eða til suðurs um Mjóafjörð þurfi að meta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka