Útskrift Menntaskólans í Kópavogi fór fram í dag og var sögulegt met sett, met sem í raun verður aldrei slegið en Orri Þór Eggertsson, dúx skólans, útskrifaðist með 10 í meðaleinkunn.
Orri stundaði bóknám á raungreinabraut og var á afreksíþróttasviði skólans. Hæst af nemendum sem stunduðu verknám var Tera Rún Júlíusdóttir en hún útskrifaðist með 9,13. Árangur Teru þótti sérstaklega aðdáunarverður þar sem hún sat bæði 2. og 3. bekk samhliða á vorönn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Á athöfninni fór skólameistari með ræðu Ingólfs A. Þorkelssonar sem flutt var á fyrstu útskrift skólans árið 1977. Orðalagið var þó fært í aðeins nútímalegri búning. Þar var meðal annars minnst á auðlindir, hagvöxt og svöng börn úti í heimi en þemun virðast ekki svo fjarlæg í umræðu nútímans.
Bút úr ræðunni má sjá hér að neðan en skólinn fagnar 50 ára afmæli í ár.
„Og mikil stórvirki hafa verið unnin á sviðum tækni og vísinda, ekki vantar það. En þrátt fyrir alla framvindu erum við fjær því en nokkru sinni að sjá öllum svöngum jarðarbörnum fyrir mat og sjálf vísindin hafa sýnt fram á það með óyggjandi rökum að heimurinn okkar, heimur tækni og vísinda, er heimur á heljarþröm. Heimur sem fær ekki staðist nema mannkynið geri sér ljóst að gæði jarðarinnar eru ekki óþrotleg og að varnarbarátta framtíðarinnar verður að snúast um varðveislu lífvænlegs umhverfis og réttlæti, en ekki um taumlausan ágóða og aukinn hagvöxt einni þjóð til handa á meðan önnur líður skort,“ segir í tilkynningunni.