Staðan kallar á inngrip stjórnvalda

Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, segir að það sé dýrt …
Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, segir að það sé dýrt að reisa húsnæði í dag og hætt við því að verktakar haldi að sér höndum. Samsett mynd

Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, segir að nú sé lag fyrir stjórnvöld til að stíga inn með öflugum hætti með stuðningi við uppbyggingu á óhagnaðardrifnu húsnæði. Þörfin í kerfinu sé mest á leiguhúsnæði.

Markaðurinn kallar á óhagnaðardrifnar íbúðir

Hann segir mikið af eignum vera á sölu um þessar mundir en það sé ekki það sem markaðurinn er að kalla á, heldur bráðvanti hagkvæmt leiguhúsnæði. Dýrt sé að reisa húsnæði í dag og hætt við því að verktakar haldi að sér höndum, sem geti búið til vandamál inn í framtíðina.

„Ríkið gæti þurft að stíga inn með mjög öflugum hætti til þess að jafna þau sveifluáhrif, með því að stuðla að uppbyggingu leiguhúsnæðis í gegnum óhagnaðardrifnar íbúðir. Þetta þekkist í öðrum löndum að mæta niðursveiflu í almennri verktöku með svona aðgerðum. Tækifærið er til staðar en ef menn eru ekki á verði þá mun ekki nást það markmið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum.“

Óljós áhrif á kjaraviðræður

Nýjar tölur Hastofunnar frá því í dag segja til um að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,39% frá því í síðasta mánuði. Róbert segir það að einhverju leyti í takt við væntingar, það að verðbólgan sé að hjaðna hægar haldið var í fyrstu. ASÍ spáir enn að hún verði um 7% í lok árs þótt Seðlabankinn sé svartsýnni.

Hann segir of snemmt að segja hvaða áhrif þetta muni hafa inn í kjaraviðræður í haust. Skipti þar miklu hvernig brugðist verður við í húsnæðismálum, sem eru sá þáttur sem verkalýðshreyfingin hefur mestar áhyggjur af, sérstaklega af stöðu þeirra sem nýverið hafa komið inn á markaðinn og stöðu leigjenda, sem mælist verri en annarra hópa.

Vöxtur í ferðaþjónustu breytir myndinni 

Eins hefur vöxtur í ferðaþjónustu áhrif á húsnæðismarkaðinn og ýtir enn á mannfjölgun. Seðlabankinn hafi getið þess í frávikum að þetta atriði gæti orðið ástæða frekari vaxtahækkana. Þetta flækir enn stöðuna en óumdeilt er í huga ASÍ að þörfin fyrir leiguhúsnæði er aðkallandi og stjórnvöld þurfi að grípa þar inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka