Skæruverkföll starfsmanna sundlauga sem eru í BSRB munu að öllum líkindum verða til þess að loka þurfi sundlaugum um hvítasunnuhelgina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB.
Starfsfólk sundlauga og íþróttamiðstöðva á Vestur-, Norður-, og Austurlandi bætast við hópinn sem þegar hefur lagt niður störf í kjaradeilum BSRB og SNS.
Skæruverkföll verða hjá starfsfólki sundlauga og íþróttamiðstöðva, til að mynda í Borgarbyggð og á Akureyri, og munu þær að öllum líkindum loka dyrum sínum fyrir gestum um hvítasunnuhelgina, að því er segir í tilkynningu.
„Ef samningar nást ekki fyrir 5. júní bætast við sundlaugar og íþróttamiðstöðvar í enn fleiri sveitarfélögum, einnig á höfuðborgarsvæðinu, allt þar til samningar nást,“ segir í tilkynningunni.
Starfsfólk eftirfarandi sundlauga og íþróttamannvirkja leggur niður störf um helgina:
Akureyrarbær
Dalvíkurbyggð
Fjallabyggð
Skagafjörður
Fjarðabyggð
Borgarbyggð
Snæfellsbær
Vesturbyggð