Þarf að greiða þrotabúi fyrirtækis sonar síns milljónir

Harrow house ehf var úrskurðarð gjaldþrota árið 2020. Fyrirtækið var …
Harrow house ehf var úrskurðarð gjaldþrota árið 2020. Fyrirtækið var í eigu Valdimars Jónssonar og rak það veit­ingastaðinn Primo í Þing­holts­stræti 1. Ljósmynd/Valdís Magnúsdóttir

Jón Ragnarsson athafnamaður þarf að greiða þrotabúi fyrirtæki sonar síns 12,9 milljónir króna. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis í dag.

Harrow house ehf, fyrirtæki Valdimars Jónssonar, sonar Jóns Ragnarssonar sem rak veit­ingastaðinn Primo í Þing­holts­stræti 1, var úrskurðað gjaldþrota árið 2020.

Stuttu áður hafði skatt­rann­sókn­ar­stjóri hafið rann­sókn á skatt­skil­um Valdi­mars og fé­lags­ins.

Þrotabú Harrow house höfðaði mál á hendur Jóni Ragnarssyni, oft kenndur við Valhöll, og krafðist endurgreiðslu fjármuna.

Byggði þrotabúið á því að um væri að ræða ógreitt lán, enda hefði skuldajöfnunin verið ólögmæt.

Jón taldi hins vegar að millifærslur á bankareikning hans og úttektir hefðu verið innborgun á leiguskuld Harrow house við einkahlutafélag sem var í eigu Jóns.

Ósamræmi í málatilbúnaði Jóns

Fram kom í dómi Landsréttar að Jón hefði ekki lagt fram önnur gögn til stuðnings málatilbúnaði sínum en hreyfingayfirlit. Þá væri ósamræmi í málatilbúnaði Jóns þar sem yfirlitið sýndi ekki að vöru- og þjónustuúttektir hans væru færðar til lækkunar á leiguskuldinni.

Ekki var heldur á það fallist að í skuldajöfnuði hefði í reynd falist leiðrétting.

Í dómnum segir að Jón og einkahlutafélag hans væru sjálfstæðir aðilar að lögum og yrðu greiðslur til Jóns því ekki taldar jafngilda greiðslum til einkahlutafélags hans.

Loks væri með öllu óútskýrt af hálfu Jóns hvernig ætluð leiðrétting hefði getað falist í því að kröfur Harrow house á hendur þáverandi framkvæmdastjóra félagsins hefðu átt að koma til lækkunar á leiguskuld þess við einkahlutafélag Jóns.

„Var því fallist á kröfu þrotabúsins um endurgreiðslu fjármunanna, samtals að fjárhæð 12.913.593 krónur,“ segir í dómi Landsréttar.

Feðgarnir báðir dæmdir

Valdimar, sonur Jóns, var fyrr í þessum mánuði dæmd­ur í 20 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og til að greiða 222 millj­ón­ir í sekt vegna skatta­laga­brota á ár­un­um 2016-2019 sem tengdust Harrow hou­se.

Áður hafði Jón, sem eig­andi hús­næðis­ins, staðið í deil­um við eig­anda veit­ing­astaðar­ins Caruso sem endaði með því að Caru­so hrökklaðist úr hús­næðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert