„Á krísutímum fæðast nýjar lausnir“

Anna Petrova hélt einlæga kynningu fyrir starfsfólk Origo í höfuðstöðvum …
Anna Petrova hélt einlæga kynningu fyrir starfsfólk Origo í höfuðstöðvum fyrirtækisins í gær.

„Það er vel mögulegt að hugsa um nýsköpun á stríðstímum. Á krísutímum fæðast nýjar lausnir og það getur eflt hugmyndaflugið,“ segir Anna Petrova, stofnandi og framkvæmdastjóri Startups Ukraine, sem hefur það markmið að skapa og þróa menningu frumkvöðlastarfs í Úkraínu og styðja við sprotafyrirtæki. Anna hefur auk þess unnið ötult starf í þágu Úkraínskra kvenna á flótta undan stríðsátökunum.

Í tilefni Iceland Innovation Week bauð Origo, sem er einn styrktaraðilanna, Önnu að koma til Íslands og taka þátt á ráðstefnunni. Anna hélt jafnframt einlæga kynningu fyrir starfsfólk Origo í höfuðstöðvum fyrirtækisins í gær, að segir í tilkynningu.

Vilja ekki endilega vinna láglaunastörf

Anna brennur fyrir eflingu nýsköpunarhæfni og telur mikilvægt að viðhalda og efla nýsköpunarstarf úkraínskra kvenna. Úr því hafa sprottið tvö verkefni á Norðurlöndunum. Um er að ræða hraðla til að hjálpa Úkraínskum konum af stað með nýsköpunarverkefni: Westart í Danmörku og Google Digital Academy í Svíþjóð, þar sem voru yfir 300 umsækjendur. Verkefnin voru til dæmis á sviði tísku, kennslufræði, tækni og matar. 

„Oft býðst flóttafólki aðeins láglaunastörf sem fólkið í landinu vill ekki vinna. En úkraínsku konurnar vilja það ekki endilega heldur. Þær búa yfir fjölbreyttri hæfni og vilja skapa sér verðugt líf og finna fyrir von,“ segir Anna og undirstrikar mikilvægi þess að konurnar geti skapað sér framtíð í nýju landi og eflt hæfni til að taka með heim aftur til að endurbyggja úkraínskt samfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert