Ellen Geirsdóttir Håkansson
Útskrift Fjölbrautaskólans í Garðabæ fór fram í dag og var það hin átján ára Agnes Ómarsdóttir sem endaði sem dúx með 9,8 í meðaleinkunn. Agnes segist ekki hafa þurft að leggja neitt sérstaklega mikið á sig til þess að ná þessari nafnbót, hún hafi einfaldlega bara reynt að gera sitt besta.
Það voru 116 stúdentar sem brautskráðust frá FG í þetta sinn og ver þetta 39. brautskráning skólans frá upphafi.
Sjálf útskrifaðist Agnes af tæknisviði á náttúrufræðibraut og segir hún daginn hafa verið skemmtilegan. Næst á dagskrá sé að fara til Mexíkó í útskriftarferð og vinna í sumar.
Spurð hvernig farið sé að því að útskrifast með svona háa meðaleinkunn segir Agnes það skipta mestu máli að skipuleggja sig vel og fylgjast vel með í tímum. Hún hafi þurft að skipuleggja sig vel þar sem hún æfi hópfimleika með meistaraflokki Stjörnunnar.
Hún játar því að hún muni sakna FG og segir hann góðan skóla en margt spennandi sé fram undan. Hún ætli sér að taka sér pásu í eitt ár og koma svo fersk til baka í háskólann. Þar sem hún hafi gaman að stærðfræði sé hún til dæmis að skoða hugbúnaðarverkfræði og tölvunarfræði í HR.
Hvað varðar ráð til fólks sem að hefur áhuga á því að verða dúx hefur hún þetta ansi einfalt, „bara gera sitt besta“.