Björn Sigurbjörnsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og forstjóri hjá FAO og Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni lést 26. maí sl. á Droplaugarstöðum, 91 árs að aldri.
Björn fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1931, sonur hjónanna Sigurbjörns Þorkelssonar, kaupmanns í Vísi, síðar forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, og Unnar Haraldsdóttur húsfreyju. Björn lauk stúdentsprófi frá MR 1951 og búfræðiprófi frá Hvanneyri árið eftir. Hann lauk meistaraprófi í búvísindum frá Manitoba-háskóla í Kanada 1957 og doktorsprófi í plöntuerfðafræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum 1960.
Eftir nám var Björn sérfræðingur í jurtakynbótum við atvinnudeild Háskóla Íslands til 1963, þegar hann var ráðinn til Alþjóðakjarnorkumálastofnunar SÞ. Þegar stofnuð var sameiginleg deild Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) og Kjarnorkumálastofnunarinnar varð Björn forstjóri jurtakynbótadeildarinnar. Björn var forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1974-1983, forstjóri hjá FAO 1983-1995 og ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu 1995-2000.
Björn nefndi í afmælisviðtali við Morgunblaðið árið 2021 að hann hefði á vegum SÞ tekið þátt í grænu byltingunni svokölluðu, sem snerist um að hjálpa fátækustu þjóðum heims að verða sjálfbjarga með matvælaframleiðslu. „Með jurtakynbótum á hrísgrjónum tókst okkur að skeyta A-vítamíni í hrísgrjón og draga úr tíðni blindu hjá börnum,“ sagði hann.
Eftir Björn liggja fjölmargar vísindaritgerðir og greinar. Þá sat hann í fjölda ráða og nefnda hér á landi og erlendis. Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, var m.a. heiðursprófessor við kínversku landbúnaðarakademíuna og heiðursmeðlimur í Vísindaakademíu landbúnaðarins í Rúmeníu. Hann var sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar 1990.
Fyrri eiginkona Björns var Helga Ingibjörg Pálsdóttir, hún lést 2004. Dóttir þeirra er Unnur Steina. Seinni eiginkona Björns er Anna Pálsdóttir lífeindafræðingur. Dætur hennar eru Ólöf Bolladóttir, Ingibjörg Hanna Pétursdóttir og Hrafnhildur Pétursdóttir.