Appelsínugular og gular viðvaranir í gildi

Appelsínugul viðvörun er nú í gildi á Austfjörðum og gildir hún til klukkan 15 í dag, en þar er norðaustan stormur eða rok og vindhraði á bilinu 20-28 m/s. Búast má við foktjóni og er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum. Varasamt ferðaveður er á svæðinu.

Þá er gul viðvörun í gildi á Norðurlandi-Eystra, Austurlandi að Glettingi, Suðuausturlandi og á Miðhálendinu. Gilda viðvaranir ýmist til klukkan 12 á hádegi eða 15. Gera má ráð fyrir snörpum vindhviðum allvíða og hríðarveðri á fjallvegum og er varasamt að vera á ferðinni.

Beinir öllum lægðum til Íslands

Ástæðan fyrir veðurofsanum mun vera fyrirstöðuhæð suður í hafi sem beinir öllum lægðum norður á bóginn til Íslands, að segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Ein þessara lægða kom upp að vestanverðu landinu í gær með tilheyrandi votviðri og allhvössum vindi. Vindhraði fer minnkandi með morgninum á vestanverðu landinu, en búast má við hvassviðri eða stormi austantil fram eftir degi.

Með norðanáttinni kólnar og henni fylgir rigning eða snjókoma á norðanverðu landinu, en styttir upp á þeim slóðum eftir hádegi. Í öðrum landshlutum ætti að vera þurrt í dag. Hiti frá 1 stigi fyrir norðan, upp í 10 stig á Suðausturlandi.

Á morgun nálgast okkur síðan úrkomusvæði frá næstu lægð. Þá má búast við suðvestan strekkingi með súld eða rigningu, en úrkomuminna á austanverðu landinu. Það hlýnar heldur til og hiti á morgun verður á bilinu 7 til 14 stig, hlýjast austanlands.

Veður á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert