Á meðan lestarsamgangna nýtur ekki við á Íslandi gegnir Reykjavíkurflugvöllur lykilhlutverki. Þetta segir Magnús Skúlason arkitekt. Hann segir að franskur kollegi sinn frá París hafi bent á þetta í ljósi hugmynda um að flytja innanlandsflug úr Vatnsmýrinni.
„Hann sagði að það væri borðleggjandi að það ætti að styrkja innanlandsflugið og þá sé staðsetningin á Reykjavíkurflugvelli hárrétt. Flugstöð á að vera eins miðlæg og hægt er eins og járnbautastöðvar annarra landa sem eru alltaf inni í miðborgum. Flugvöllurinn er ígildi járbrautarstöðvar.”
Magnús telur að áform um sexföldun íbúabyggðar í Skerjafirði muni þrengja að flugvellinum eins og rannsóknir hafi sýnt.
„Mér finnst það vera algjör tilbúningur að ætla að flytja flugvöllinn því að flugtæknilega er hann á albesta stað. Þegar upp er staðið er þetta ein af aðförunum í því að koma flugvellinum burt.”
Reykjavík sé höfuðborg landsins og miðstöð stjórnsýslunnar og því séu málefni Reykjavíkurflugvallar ekki einkamál borgarbúa.
Magnús segir að áform um nýja hverfið sem reisa á fyrir austan núverandi byggð í Skerjafirði séu að sumu leiti jákvæð, um sé að ræða opið og sólríkt svæði, en tvennt stingi í augun. Byggja eigi fjögurra og fimm hæða byggingar sem séu alltaf skuggamyndandi og trufli vind.
„Ég myndi gera verulegar athugsemdir við sjálft skipulagið vegna hæðar húsa og síðan en ekki síst að fylla upp í sjóinn við Skerjafjörð og skemma núverandi ósnerta strandlengju sem er mikils virði. Strandlengjur sem ekki hafa verið skertar eru fáar á Reykjavíkursvæðinu. Mér finnst það mjög gagnrýnivert að láta sér detta það í hug að fara þarna í landfyllingar og eyðileggja strandlengjuna með tilheyrandi skemmdum á lífríkinu.”
Áform um að láta margfalda umferð fara í gegnum Einarsnes inn í Skerjafjörð þegar nýja hverfið er risið eru líka gagnrýniverð að mati Magnúsar.
„Þetta er eignaupptaka gagnvart íbúum sem búa þarna í dag. Þeir eru fórnarlömb þessa máls.”
Hann segir enga þörf á því að byggja nýtt hverfi við Reykjavíkurflugvöll, það sé nægt land til staðar fyrir nýjar íbúðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem er hægt að þétta byggð án þess að fara í þéttingar á svæðum þar sem byggð er nú þegar til staðar. Reykjavíkurflugvöllur sé aðeins einn hektari en til staðar sé um 6-7 hektara mögulegt byggingarland.
„Það er engin ástæða til að vera að byggja þarna.”
Einkabíllinn er ekki að hverfa úr umferð segir Magnús en þar eru orkuskipti yfir í rafbíla á fleygiferð. Nauðsynlegt sé þó að stórefla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem séu ekki viðunandi í dag.
Flutningsgeta um Hringbrautina sé til dæmis komin að þolmörkum á sama tíma og mikið sé byggt í Vesturbænum. „Það er verið að bæta við þúsundum íbúða þar. Fyrirhuguð Borgarlína mun leysa lítið af umferðarmálum Reykjavíkurborgar og hún kostar allt of mikið.”