Hundruð lunda liggja dauð í fjörum á Vesturlandi

Hér má sjá hluta af þeim lundum sem sáust við …
Hér má sjá hluta af þeim lundum sem sáust við Löngufjörur. Ljósmynd/Aðsend

Íbúar við Löngufjörur á Vesturlandi hafa nú í dag gengið fram á hundruð, jafnvel þúsundir dauðra fugla, liggjandi í fjörunni, mestmegnis lunda. Íbúi segist aldrei hafa vitað annað eins. Fuglafræðingur segir stöðuna grafalvarlega og nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að grípa inn í strax. 

Vildís Þrá Jónsdóttir býr á svæðinu. Hún segir foreldra sína hafa farið í göngutúr um klukkan sjö í kvöld og gengið þá fram á þessa sýn.

„Þetta er bara eftir allri strandlengjunni, þetta eru svona fjórir kílómetrar. Þau komust aðeins niður að sjó og sáu þá svona fjóra, svo fóru þau aðeins lengra og sáu mörg þúsund,“ segir Vildís í samtali við mbl.is.

„Það er ekki lundi hérna á svæðinu hjá okkur

Vildís Þrá Jónsdóttir, íbúi við Löngufjörur á Vesturlandi.
Vildís Þrá Jónsdóttir, íbúi við Löngufjörur á Vesturlandi. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir foreldra sína telja að um mörg hundruð, jafnvel mörg þúsund, fugla sé að ræða. Fjölskyldan hafi aldrei séð neitt þessu líkt.

„Við tókum eftir svolitlu af dauðum súlum í fyrra, ekkert mjög mörgum samt en það er ekki lundi hérna á svæðinu hjá okkur. Við höfum séð svona einn og einn dauðan yfir árin en ekki í líkingu við þetta,“ segir Vildís.

Hún segist hafa séð umræðu um mörg hundruð dauða fugla í annarri fjöru en væntir þess ekki að það verði hægt að vita neitt þar til MAST eða Náttúrufræðistofnun komi og taki sýni. Hún ímyndi sér að þetta geti verið mikið áfall fyrir lundastofninn.

Enn fleiri lunda má sjá á víð og dreif.
Enn fleiri lunda má sjá á víð og dreif. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef aldrei séð þetta áður“

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segist sjálfur hafa séð tugi dauðra lunda í fjörunni í Kollafirði ásamt töluverðu magni af deyjandi fuglum við fjöruna á fimmtudag þegar hann lagði leið sína þangað.

Hvort um sé að ræða fuglaflensu eða annað viti hann ekki. Hann hafi sent inn tilkynningu til MAST en ekkert heyrt.

„Lundinn er kominn á válista og svo í fyrra bitnaði hún mikið á súlum þessi fuglaflensa. Ritan hefur hegðað sér mjög einkennilega í vor og það hafa fundist dauðar ritur í stórum stíl,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is og lýsir yfir miklum áhyggjum. Fræðasamfélagið átti sig ekki á hvað sé á seyði.

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur lýsir yfir miklum áhyggjum vegna ástandsins. …
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur lýsir yfir miklum áhyggjum vegna ástandsins. Yfirvöld þurfi að grípa inn í strax. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Allir sem vettlingi geta valdið þurfi að taka þetta alvarlega

„Ég hef aldrei séð þetta áður,“ segir Jóhann alvarlegur og bætir því við að dauðar ritur hafi fundist í stórum stíl á Snæfellsnesi og lítið varp hafi verið á Arnarstapa.

Hann segir nauðsynlegt fyrir Umhverfisstofnun, MAST, umhverfisráðuneytið og alla sem vettlingi geta valdið að taka stöðuna alvarlega og taka á málunum.

„Þetta er mjög alvarleg staða greinilega,“ segir Jóhann.

Dauðir svartfiglar sjást einnig.
Dauðir svartfiglar sjást einnig. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is/Guðrún Vala
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka