Íbúafundur Hveragerðis, þar sem kynna átti stefnumótun KPMG fyrir sveitarfélagið, breyttist fljótlega í vinnufund, þar sem íbúum var skipt upp í hópa og þeir fengnir til að vinna að stefnumótun bæjarins, að sögn íbúa sem sátu fundinn og blaðamaður ræddi við.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is yfirgáfu þó nokkrir íbúar svæðið þegar vinnufundurinn hófst en fundarboðið gaf ekki til kynna að íbúar ættu að vinna að stefnumótun. Íbúi sem sótti fundinn segir mikilvægt að tiltaka í fundarboði ef um sé að ræða vinnufund enda hafi íbúum ekki gefist tækifæri til að undirbúa sig fyrir hann.
Geir Sveinsson, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að hugsanlega hefði það mátt koma skýrar fram í fundarboði að óskað yrði eftir aðkomu þeirra sem mættu á fundinn. Tilgangurinn hafi verið að leyfa íbúum að hafa aðkomu að stefnumótuninni.