Nýafstaðin íbúakönnun um breytt deiliskipulag miðbæjar Selfoss sýnir afgerandi fylgi með breytingum sem á því voru gerðar. Formaður bæjarráðs Árborgar segir stuðning íbúa mikilvægan, en vonast sé til þess að annar áfangi framkvæmda verði langt kominn árið 2026.
Nýtt deiliskipulag hefur til dæmis í för með sér niðurgrafna göngugötu og betri tengingu við Sigtúnsgarð en uppbygging miðbæjarins í þeirri mynd sem nú sést hófst árið 2018.
„[...] Það var í rauninni bara lagt upp með það í upphafi að við myndum spyrja íbúana, gefa þeim tækifæri á að segja sitt álit á þessu, af því í grunninn árið 2018 þegar farið var af stað í upphafi með miðbæinn þá fengu íbúar að kjósa um hvort þeir vildu það deiliskipulag sem er í gildi. Það var kannski ákveðið hugsjónamál í upphafi að þeir fengju að segja sitt álit á þessum breytingum,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar í samtali við mbl.is.
Niðurstöður könnunarinnar sýndu að 89 prósent þeirra sem tóku þátt voru hlynntir breytingunni en það eru 1.468 íbúar, aðeins 11 prósent eða 187 voru andvígir. Alls tóku tæplega tuttugu prósent íbúa, 16 ára og eldri, þátt í könnuninni en 8.936 höfðu möguleika á að taka þátt.
„[...]Í rauninni er heilt yfir mjög ánægjulegt hversu afgerandi niðurstaðan er. Ég vona það bara að flestir séu orðnir spenntir fyrir því að uppbyggingin haldi áfram og við fáum að njóta enn frekar þegar verður búið að ljúka framkvæmdum í miðbænum,“ segir Bragi. Honum finnist uppbyggingin í raun hafa gjörbreytt ímynd samfélagsins og verið mikil lyftistöng fyrir Selfoss og Suðurland í heild sinni.
Þegar vikið er að nýjum Suðurlandsveg og Ölfusárbrú segir Bragi loksins eitthvað vera að gerast í þeim málum. Nýr Suðurlandsvegur var opnaður við hátíðlega athöfn í þessari viku og nefnir hann að ný Ölfusárbrú sé vonandi væntanleg fyrr en síðar. Sú gamla hafi verið ákveðinn flöskuháls fyrir bæinn og sveitarfélagið.
„Við vonum það að svona með nýju brúnni þá gefist betra svigrúm og aukinn tími fyrir þá sem vilji koma og heimsækja bæinn, vilji stoppa og njóta. Að þá verði það auðveldara þannig að þetta sé frekar mikill plús fyrir sveitarfélagið þegar nýja brúin kemur, að þá geti menn notið betur bæði hérna á Selfossi og bæjunum í kring,“ segir Bragi.
Þá sé útboð verksins væntanleg á þessu ári samkvæmt orði frá Vegagerðinni. Eftir opnun vegarins sé brúin svo sannarlega næst. Möguleiki sé á því að ný brú geti opnað árið 2027 en erfitt sé þó að lofa slíku.
„Við viljum sannarlega fá nýja brú og vonandi kemur hún sem fyrst,“ segir Bragi jákvæður.
Ef við höldum áfram á aðeins persónulegri nótum, átt þú þér uppáhalds byggingu sem er búin að rísa eða er á áætlun?
„Af því sem búið er að rísa, þá kann maður ótrúlega vel við söguna og mér finnst mjólkurbúið rosalega heillandi hús. [...] Maður er uppalinn sjálfur í sveit og á kúabúi þannig að Mjólkurbú Flóamanna hafa alltaf ákveðinn sess í hjarta manns. Gamla mjólkurbúið er sannarlega mjög sögufrægt og flott hús og ber sig með sóma þarna. Maður hefur oft lagt leið sína þangað hvort sem það er bara til að borða eða njóta sýningarinnar sem er niðri í kjallaranum. Þannig að af því sem komið er finnst mér það mjög heillandi,“ segir Bragi. Þó sé nýja göngugötutengingin sem er á dagskrá í öðrum áfanga framkvæmdanna mjög heillandi.
„Svo finnst manni mjög spennandi þessi sýn á framhaldið með niðurgrafna göngugötu og þessa tengingu sem við getum átt við garðinn okkar. Ég persónulega er mjög spenntur fyrir því þegar þetta verður allt komið að maður geti farið þarna sem íbúi og notið, bæði í garðinum og í miðbænum,“ segir hann.
Húsin sem risið hafa í miðbænum og eru á dagskrá eru byggð á útliti húsa víða af landinu og segir Bragi fólk alls staðar að eflaust eiga sína persónulegu tengingar við sum húsana.
„Síðan er þetta einstakt verkefni að því leyti til, og mér finnst það mjög spennandi persónulega, það er þessi heildstæða uppbygging sem er á því, þannig þú ert í þessum sama stíl allan hringinn ef svo má að orði komast. Allur miðbærinn sem er verið að byggja upp er í þessum stíl og það er mjög spennandi og skapar ákveðna heild. Þetta er svona hlýlegt og gott umhverfi,“ segir Bragi.
Fari allt eins og á að fara, hvenær er búist við að þessi áfangi verði kláraður?
„Já, þegar stórt er spurt. Nú veit maður ekki alveg því það er undir framkvæmdaaðilum komið en ég veit að þeirra áform eru að reyna að klára þetta sem allra fyrst. Þeir eru byrjaðir að rífa hluta af gömlu húsunum þar sem á að byrja á öðrum áfanga og framkvæmdir hefjast núna síðar á þessu ári. Þannig að það sem menn hafa sagt svona án ábyrgðar, væri að svona kannski á árinu 2026 væri stór hluti af þessum áfanga tilbúinn,“ segir Bragi og nefnir að hann hafi varann á sér því ýmislegt geti komið upp í framkvæmdum. Margt geti breyst hratt.
„Menn eru að stefna á að reyna að klára áfangann á svona þremur, fjórum árum og það auðvitað ýtir við mönnum að reyna að vera tilbúnir þegar brúin kemur,“ segir Bragi að lokum.
Meira um sögu húsa miðbæjarins má sjá hér.