Hinum átján ára Orra Þór Eggertssyni tókst í gær að verða dúx Menntaskólans í Kópavogi og sá fyrsti í fimmtíu ára sögu skólans til þess að útskrifast með tíu í meðaleinkunn. Hann segist hafa stefnt að þessu eftir fyrstu annirnar en agi og skipulag skipti mestu máli í þessu samhengi.
Orri stundaði nám á afrekssviði skólans með raungreinabraut en afrekssviðið segir hann veita nemendum svigrúm til þess að stunda íþróttir samhliða námi.
„Þá er ég að taka kjarnafög eins og eðlisfræði og efnafræði og svona en fæ samt að fara í verklega áfanga þar sem ég er að stunda mínar æfingar og fara í styrktarþjálfun og svona ásamt því að fara í næringarfræði íþróttamanna, íþróttasálfræði og svoleiðis, það er bara algjör snilld,“ segir Orri í samtali við mbl.is. Hann er með svarta beltið í Taekwondo og er í íslenska landsliðinu í þeirri íþrótt.
Hefurðu alltaf stefnt að þessu, var alltaf markmiðið að dúxa?
„Ja, ég sagði það nú fyrst bara í gríni eftir fyrstu önnina þegar ég fékk þessa einkunn, ég hélt náttúrulega að þetta væri bara eitthvað sem hefði bara gerst einu sinni, bara eitthvað fyndið. Fyrsta önnin mín var í heimsfaraldrinum, þá hafði ég í rauninni ekkert mikið annað að gera heldur en að læra, gat ekki verið að æfa eða fara mikið út og svona. [...] Eftir aðra eða þriðju önnina mína þá fór ég svona að stefna að þessu raunverulega og hef bara verið með þetta markmið síðan þá, að klára með tíu í einkunn“.
Það er svolítið magnað markmið, hvernig fer maður eiginlega að þessu?
„Það er náttúrulega bara skipulag númer eitt, tvö og þrjú og bara að vera tilbúinn að leggja smá vinnu á sig, það er bara mikilvægt“.
Hvernig er það, þú ert afreksíþróttamaður í ofanálag, hvernig finnur maður jafnvægið til þess að geta þetta?
„Já, það er frekar erfitt að vera að æfa mikið og vera að læra mikið þannig ég er búinn að vera með marga bolta á lofti, en eins og ég sagði áðan þá er afreksíþróttasviðið í MK búið að styðja mig ótrúlega mikið. Stjórnendur þar hafa stutt mig í gegnum þetta allt. Sérstaklega ef ég er að fara í einhverja keppnisferð þá hef ég alltaf fengið svigrúmið sem ég þarf fyrir það. En auðvitað er þetta bara svakaleg vinna líka að vera að gera þetta bæði, að vera að æfa á hverjum degi og svo fara heim að læra og mæta í skólann næsta dag og líka vera að vinna“.
Orri segist hafa verið í hlutastarfi með skólanum síðustu tvö ár og einnig verið að þjálfa Taekwondo nokkrum sinnum í viku.
Spurður hvort hann sé með fleiri tíma í sólarhringnum en við hin skellir hann upp úr.
„Það mætti halda það, það mætti halda það, en það náttúrulega bara snýst um að nýta þessa tíma mjög vel. Að vera skipulagður og hugsa bara, ef ég hef eitthvað verkefni að þá bara þarf ég að finna tíma fyrir það og ná að púsla öllu saman öllu sem er í gangi, sem er náttúrulega smá erfitt stundum“.
Þú hlýtur að hafa þurft að færa einhverjar fórnir til þess að láta þetta ganga upp?
„Já að sjálfsögðu, það er náttúrulega ekki hægt að gera allt og stundum hefur maður þurft að fórna tíma með fjölskyldu og vinum en ég hef alltaf reynt eins og ég get að troða því inn. Ég vil líka bara þakka nemendafélaginu í MK fyrir að vera að halda uppi svona góðu félagslífi, sérstaklega á þessu ári, þau eru búin að standa sig gríðarlega vel og mér hefur fundist mjög skemmtilegt að taka þátt í félagslífinu í skólanum eins og ég get“.
Það hlýtur að skipta líka mjög miklu máli að geta stundum aðeins gert eitthvað annað en að læra, vinna og vera á æfingu?
„Já að sjálfsögðu, maður þarf að ná að halda einhverju jafnvægi, bara work hard, play hard sko,“ segir Orri og hlær.
Hann segist í raun ekki vera búinn að átta sig á því að hann sé útskrifaður.
„Mér líður eins og ég sé að fara aftur í skólann á mánudaginn en ég hugsa að þetta taki nokkra daga og svo allt í einu fattar maður þetta bara. Ég er bara orðinn stúdent og fer ekkert aftur í menntaskóla,“ segir Orri. Það sé ljúfsár tilfinning sem fylgi því að vera útskrifaður.
„Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt og að sjálfsögðu líka mjög krefjandi. Ég er náttúrulega mjög ánægður að hafa náð þessu og dálítið feginn að þetta sé búið en að vissu leyti þá mun ég alveg sakna þessara ára. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil, sérstaklega þetta ár myndi ég segja, örugglega skemmtilegasta árið mitt í menntaskóla“.
Hvert er stefnan sett, er það á frekara nám, ætlarðu að ferðast eða slaka á?
„Ég vil hafa mikið að gera þannig ég ætla að vera að vinna í sumar og svo er ég að fara að stunda nám við verkfræðideild HR í haust,“ segir Orri en stefnan sé sett á rekstrarverkfræði eins og staðan sé í dag. Hann útilokar þó ekki að hann muni skipta um skoðun.
Þú ætlar bara að vinna og safna í sumar?
„Já, það er í rauninni planið, að safna eins og ég get og fara svo í skólann í haust og reyna að hafa gaman á meðan ég er að þessu“.
Ertu með einhver ráð til fólks sem langar að dúxa?
„Þegar stórt er spurt. Ég myndi bara segja, að vera mjög skipulagður, vera agaður og vera nógu agaður til að fylgja því skipulagi sem maður gerir og reyna bara að hafa gaman á meðan. Það er náttúrulega alveg tilgangslaust að vera að leggja þetta allt á sig ef maður er bara alveg að deyja í leiðinni. Það er í raun mikilvægara að njóta þess að vera í menntaskóla heldur en að vera að setja of mikið á sig myndi ég segja,“ segir Orri.
Að lokum dásamar hann MK og þakkar fyrir stuðninginn og skólafélagana.
„Ég verð að eilífu þakklátur fyrir skólann, bæði kennarana, starfsfólkið, samnemendur mína og bara alla“.