Ökumaður var stöðvaður á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna þess að bifreið hans var búin nagladekkjum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en ekki fylgir hvort téður ökumaður hafi verið sektaður fyrir athæfið.
Lögum samkvæmt má ekki aka um á bifreiðum búnum nagladekkjum eftir 15. apríl en hefur lögregla ekki sektað ökumenn fyrr en í maí.
Greinilegt er að lögreglan er þó í það minnsta farin að stöðva ökumenn fyrir að aka bifreiðum búnum nagladekkjum, enda kominn 27. maí.
Samkvæmt sektarreikni lögreglunnar er sektin fyrir hvert stakt nagladekk nú 20.000 krónur. Þar sem langflestir keyra um á fleiri en einu nagladekki er ljóst að sektin getur því numið allt að 80.000 krónum.