„Í sjokki yfir því hvernig þetta gerist“

Ekkert verður bakað í Heimabakarí á Húsavík fyrr en í …
Ekkert verður bakað í Heimabakarí á Húsavík fyrr en í fyrsta lagi eftir fjórar vikur. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Maður er bara að melta þetta. Við getum ekkert opnað fyrr en allavega eftir fjórar vikur,“ segir Hálfdán Sveinbjörn Kristinsson, eigandi Heimabakarís á Húsavík. Hann segir ekki gott að þurfa að loka á þessum tíma árs, einmitt þegar ferðamennirnir eru komnir til bæjarins. 

Eldur kviknaði í Heimabakarí á föstudagskvöld og er tjónið mikið. Allt tiltækt slökkvilið var kallað til og náðist að ráða niðurlögum eldsins á mettíma. Þrátt fyrir skjótan viðbragðstíma er tjónið mikið í bakaríinu, sem er það eina á Húsavík. 

„Loksins þegar eitthvað er að gerast í bænum og hann fyllist af ferðamönnum, þá þurfum við að loka,“ segir Hálfdán. Blómleg ferðaþjónusta er á Húsavík og dregur hvalaskoðun margan ferðamanninn að, sem og Sjóböðin á Höfða. 

Lögregla skoðað vettvanginn

„Lögreglan er búin að koma og skoða staðinn. Það er þeirra að gefa út hvað þetta var,“ sagði Hálfdán. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri fer með rannsókn málsins en mbl.is náði ekki tali af henni í dag. 

Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, sagði í samtali við mbl.is á föstudag að eldurinn hafi kviknað í miðju húsnæðinu og að svolítil leið hefði verið að upptökum hans fyrir slökkvilið.

Hálfdán var í bakaríinu fyrr um kvöldið og var nýkominn heim þegar eldurinn kviknaði. 

„Við vorum að gera klárt fyrir næsta dag. Maður er meira í sjokki yfir því hvernig þetta gerist. Svo er að koma sumar og það verður ekkert opnað einn tveir og bingó,“ segir Hálfdán. 

Verður þetta mikið tekjutap fyrir ykkur?

„Já, þetta verður það. Vanalega fáum við um 70% árstekna okkar á þessum þremur mánuðum, júní, júlí og ágúst,“ segir Hálfdán.

Heldurðu að reksturinn standi þetta af sér?

„Æi ég veit það ekki, jú verður maður ekki að vera bjartsýnn?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert