Engir samningafundir hafa farið fram í kjaradeilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því á mánudaginn. Sundlaugagestir víða um land hafa ekki farið varhluta af verkfallsaðgerðum BSRB um helgina en nú þegar hafa verkföll komið í veg fyrir sundferðir fólks í átta sveitarfélögum um Hvítasunnuhelgina, á Vestur- Norður og Austurlandi. Aðgangur að íþóttahúsum hefur einnig verið takmarkaður.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að talsamband hafi verið á milli formanna samninganefnda deiluaðila að undanförnu sem hafi þó legið niðri undanfarna daga. Í næstu viku skella á verkföll í ellefu sveitarfélögum sem snúa að starfsfólki innan raða BSRB sem starfar á m.a. á leikskólum sem munu leggja niður störf.
„Þetta eru í kringum 60 leikskólar,” segir Sonja og ljóst er því að verkföllin munu raska daglegu lífi margra víðs vegar um landið. „Svo eru þetta hafnirnar á afmörkuðum dögum m.a í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum.“ Verkföllin ná einnig til starfsfólks innan raða BSRB í grunnskólum, frístundamiðstöðvum, á bæjarskrifstofum og í áhaldahúsum.
Frá 5. júní verða verkfallsaðgerðir hertar enn frekar þegar um 2.500 starfsmenn í 29 sveitarfélögum munu leggja niður störf náist ekki samningar fyrir þann tíma. „Þetta hefur haft veruleg áhrif nú þegar. Við byrjuðum á fjórum sveitarfélögum og svo bættist í og það er mikil þjónustuskerðing sem fylgir þessu, en það grípur enginn til verkfalla nema í neyð. Það er búið að reyna allar aðrar leiðir.”
Sonja segir að viðræður um að gera kjarasamning til eins árs hafi nú staðið yfir í fimm mánuði og hún setur þá kröfu á oddinn að félagsmenn sínir fái afturvirkar hækkanir eins og aðrir starfsmenn sveitarfélaganna fengu í janúar. Ekki frá byrjun apríl eins og rætt hefur verið um í yfirstandandi viðræðum. Það muni um 25% hækkun launa á ársgrundvelli.
Afstöðubreytingu þurfi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi. „Það bætist á þrýstinginn eftir því sem fram líður þar sem aðgerðirnar okkar eru stigmagnandi.”
Sonja segir að kröfur BSRB feli aðeins í sér 0,3% hækkun á heildarlaunakostnaði sveitarfélaganna og því ætti að vera auðvelt að ganga frá nýjum kjarasamningi. „Við gætum klárað þetta í dag en það þarf vilja til.”