Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar segir að lögð verði á ráðin í vikunni um viðbragð stofnunarinnar við víðtækum fugladauða á Vesturlandi. Hún telur atvik málsins ekki kalla á bráðaviðbragð að svo stöddu.
„Við viljum heyra í samstarfsstofnunum okkar fyrst og gerum ráð fyrir því að vera í sambandi við þær núna beint eftir helgina. Þá er fyrst að útiloka hvort þetta sé fuglaflensa og Matvælastofnun þarf að gera ráð fyrir því að taka sýni.
Ef þetta er ekki það, og það eru ekki endilega vísbendingar um að svo sé, þá eru að öllum líkindum vistfræðilegar ástæður fyrir þessu sem Náttúrufræðistofnun myndi leggja mat á,“ segir Sigrún spurð hvernig hún sjái framvindu málsins fyrir sér.
Pavle Estrajher, íbúi í Borgarnesi, segir son sinn hafa greint sér frá fjölda dauðra lunda í Borgarvogi. Hann hafi svo farið með honum á vettvang og séð fjölda dauðra fugla.
Í kjölfarið sendu þeir feðgar tilkynningu til Matvælastofnunar.
Sigrún segir ýmsar mögulegar orsakir koma til greina og því muni stofnunin ekki ráðast í neinar aðgerðir fyrr en það liggur fyrir hvað hafi valdið þessum fjöldadauða.
„Það virðist ekkert vera í þessu endilega sem kallar á bráðaviðbrögð. Það verður farið ofan í orsakirnar fyrst og svo lagt mat á hvað verður gert.“
Hún gerir ráð fyrir því að sú vinna hefjist í komandi viku.