Fyrrverandi hluthafar félags um rekstur búseturéttarfélags eldri borgara í Reykjanesbæ hafa lögsótt kaupanda og lögfræðiskrifstofu fyrrum framkvæmdastjóra félagsins. Telja þeir að salan hafi verið samþykkt þrátt fyrir að hærri tilboð hafi legið á borðinu. Eins hafi verið horft framhjá kauprétti hluthafa við söluna.
Forsaga málsins er sú að þáverandi framkvæmdastjóri félagsins sá um sölu á eignunum í gegnum lögmannsskrifstofu sína til fjárfestingarfélagsins P190 þar sem hann situr sjálfur í stjórn.
Umræddir hluthafar stefndu lögmannsskrifstofunni og fjárfestingafélaginu P190 og vilja ganga inn í kaupin í krafti meints kaupréttar. Á þriðjudag fór fram fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjaness í málinu.
Sækjast hluthafarnir fyrrverandi eftir staðfestingu á forkaupsrétti sem þeir telja að hafi verið gengið framhjá þegar félagið var selt fjárfestingahópnum P190. Á þeim grunni vilja hluthafarnir að félagið verði sett í hendur þeirra á sömu kjörum og P190 keypti félagið á eða á þrjá milljarða króna.
Framkvæmdastjóri búseturéttarfélagsins, Nesvellir ehf., var Garðar K. Vilhjálmsson en hann er einnig stjórnarmaður í P190 og hafði milligöngu um kaupin í gegnum lögmannsskrifstofu sína, Málamiðlun ehf.
Nesvellir ehf. var í eigu íbúa með búseturétt og eftir atvikum dánarbúa en ríflega fimmtungshlutur var í eigu Reykjanesbæjar. Samkvæmt samþykktum félagsins höfðu hluthafar forkaupsrétt á hlutafé í félaginu.
Fljótlega eftir að ákveðið var að selja félagið var tilkynnt að fjárfestingahópurinn P190 væri áhugasamur kaupandi en samkvæmt verðmati sem kynnt var stjórn félagsins var andvirði félagsins nærri þremur milljörðum króna.
Í því ferli samþykkti stjórn að fella niður kaupréttarákvæði íbúa.
Hluti íbúa vildi að félagið yrði selt á opnum markaði og í framhaldi var leitað eftir tilboðum framhjá stjórn félagsins. Samkvæmt gögnum sem mbl.is er með undir höndum var leitað álits hjá endurskoðunarskrifstofunni KPMG og var niðurstaðan sú að a.m.k tvö tilboðanna þriggja sem bárust væru hærri en það sem samþykkt var af stjórninni. Voru því fjögur tilboð alls.
Lengi var tilboð P190 það eina sem kynnt var stjórninni og fóru önnur tilboð ekki fyrir stjórnina fyrr en sólarhring áður en tilboð P190 féll úr gildi. Voru tilboðin fjögur borin undir hluthafa sem margir hverjir eru komnir á aldur. Sólarhring síðar var tilboði P190 samþykkt af ríflega 90% hluthafa.
Ef tekið er mið af stefnu málsins telja hluti íbúa sig hlunnfarna um forkaupsrétt þar sem hann var felldur út á fundi stjórnar félagsins þegar kaupferli var í gangi og eftir að samningaviðræður við P190 hófust.
Höfðu íbúarnir eða þeir sem töldu sig hafa forkaupsrétt þá boðist til að ganga inn í kaupin en því var hafnað.
Í framhaldi af því eignaðist P190 félagið. P.190 hefur verið virkt í umsvifum í Reykjanesbæ og á stærstan hlut í Ásbrú ehf. sem hefur m.a. verið með umsýslu varnarliðsíbúða á sínum snærum.
Fréttin hefur verið uppfærð.