Útskrift Verzlunarskóla Íslands fór fram á laugardaginn og varð Alexander Kaaber Bendtsen dúx skólans með 9,93 í meðaleinkunn. Hann útskrifaðist af eðlisfræðilínu á náttúrufræðibraut og er nú staddur í Portúgal í útskriftarferð.
„Í upphafi reyndi ég bara að gera eins vel og ég gat og tók svo eftir því að þetta var möguleiki og þá gerði ég bara alltaf mitt besta og það endaði svona,“ segir Alexander í samtali við mbl.is, spurður hvort það hafi alltaf verið markmiðið að dúxa.
„Ég vissi að ég gæti gert þetta af því að ég var byrjaður að standa mig vel á fyrsta ári og tók eftir því að ég var að fá háar einkunnir,“ segir hann og kveðst hafa verið mjög ánægður þegar áfanganum var loksins náð.
Hver er lykillinn að þessari velgengni, hvernig fer maður að þessu?
„Ég held að það sé ekki eitthvað eitt, en að hafa metnaðinn og viljann til þess að gera þetta, það kemur manni ótrúlega langt. Það versta sem þú gerir er að fylgjast ekki með í tíma, því það að fylgjast vel með í tíma kemur þér mjög langt.“
Auk þess að hafa dúxað tók Alexander virkan þátt í félagslífinu, en hann var í Listanefnd skólans, ræðuliði Morfís, formaður hagsmunaráðs og lék í Nemendamótinu. Þá hefur hann tekið að sér kennslu í stærðfræði fyrir yngri nemendur, auk þess að vera með svarta beltið í karate.
„Ég held að það sé ekkert samasemmerki á milli þess að ganga vel í námi og geta ekki átt félagslíf, ég held að það séu allir alltaf að gera eitthvað meira“ segir Alexander.
Fyrsta árið hafi verið litað af kórónuveirufaraldrinum og nemendur þá verið mikið heima. Hann hafi því ákveðið á öðru ári að taka virkan þátt félagslífinu.
„Fyrir lokaprófin skipulegg ég mig mjög vel og læri vel fyrir þau. Þess á milli er ég í raun bara með vinum mínum að skapa minningar og taka þátt í félagslífinu og það er það sem mér finnst langskemmtilegast. Ég næ að meðtaka og skilja það sem ég les og þá er maður ekkert lengi að finna þetta jafnvægi.“
Spurður hvað sé framundan segir Alexander að stefnan sé sett á að læra stærðfræði við Háskóla Íslands.
„Ég hef verið að kenna einkatíma í stærðfræði og finnst það mjög skemmtilegt, aðallega fyrir yngri nemendur í Verzló og svo grunnskólanemendur í tíunda bekk.“
Hvað varðar ráð til fólks sem langar að dúxa segir Alexander að fólk eigi einfaldlega að gera eins vel og það getur.