Fundurinn í dag „skref aftur á bak“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir fundinn í dag hafa …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir fundinn í dag hafa skilað litlu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSBR, segir fundur samninganefnda BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS), hjá aðstoðarsáttasemjara í dag ekki hafa skilað neinu. Í raun hafi skref verið stigið aftur á bak í að leysa deiluna á fundinum.

Aldís Sigurðardóttir og Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjarar boðuðu til óformlegs fundar í dag með það að markmiði að þokast í áttina að samningum.

Færðust fjær samningi

„Markmiðið var að sjá hvort hægt væri að þoka þessu eitthvað áfram í ljósi þess að það eru frekari verkföll að skella á í vikunni en niðurstaðan er í rauninni bara sú að við höfum tekið skref aftur á bak,“ segir Sonja Ýr í samtali við mbl.is. 

Spurð hvað hún meini með því að stíga skref aftur á bak sagðist Sonja ekki vilja fara í smáatriðin á fundinum. „En samtalið var var þess eðlis til þess að við færðumst fjær heldur en nær,“ segir Sonja Ýr. 

Eftir ríflega tveggja tíma fund var honum slitið og þótti aðstoðarsáttasemjurum ekki tilefni til þess að boða annan fund að svo stöddu. 

„Því miður er deilan enn í hörðum hnút,“ segir Sonja Ýr. 

900 leikskólastarfsmenn leggja niður störf

Þriðja vika verkfallsaðgerða BSRB hefst á morgun. Að óbreyttu munu um 900 leikskólastarfsmenn leggja niður störf á morgun. Mun áhrifa verkfallanna gæta í yfir 60 leikskólum og leikskóladeildum grunnskóla ellefu sveitarfélaga. 

Um Hvítasunnuhelgina lögðu félagsmenn Kjalar, aðildarfélags BSRB, niður störf í tuttugu sundlaugum og íþróttamiðstöðvum í átta sveitarfélögum.

Félagsmenn hafa þegar samþykkt frekari verkföll í atkvæðagreiðslum og að óbreyttu verður stígandi á verkfallsaðgerðum BSRB frá 5. júní samkvæmt aðgerðaráætlun BSRB. Náist ekki að semja munu verkföllin samtals ná til að minnsta kosti 2500 starfsmanna í 29 sveitarfélögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert