Sögusagnir í morðmáli vöktu sérstaka athygli

Sigursteinn Másson fjallar um bróðurvígið á Gýgjarhóli í nýjasta þætti …
Sigursteinn Másson fjallar um bróðurvígið á Gýgjarhóli í nýjasta þætti sínum af Sönnum íslenskum sakamálum. Samsett mynd

„Það sem vakti sérstaka athygli mína þegar ég fór að skoða þetta mál var í fyrsta lagi munurinn á dómunum í héraði og í Landsrétti. Síðan voru það sögusagnir í uppsveitum Árnessýslu um að atburðarásin hefði verið með öðrum hætti en í ljós kom með ítarlegri og nákvæmri rannsókn.“

Þetta segir Sigursteinn Másson um bróðurvíg í Biskupstungum sem átti sér stað árið 2018, er Valur Lýðsson varð bróður sínum, Ragnari, að bana á bænum Gýgjarhóli II. Hann fjallar um málið í nýrri þáttaröð sinni af Sönnum íslenskum sakamálum. Þátturinn, sem er sá þriðji í röðinni, fer í loftið á Storytel í dag.

„Það er óvenjulegt að dómur sé tvöfaldaður milli dómsstiga,“ segir Sigursteinn og vísar til þess að Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir Val úr sjö árum í fjórtán. Í þættinum varpar hann fram þeirri spurningu hvers vegna svo mikill munur sé á niðurstöðum.

Ýmislegt sem stemmir ekki

Sigursteinn tekur fram að réttarmeinarannsóknin í málinu hafi verið til mikillar fyrirmyndar.

„Krufning og blóðferlarannsókn á vettvangi leiddi í ljós eins skýra atburðarás og hægt var að fá miðað við það að gerandinn bar fyrir sig minnisleysi,“ segir hann.

„Það er í sjálfu sér athyglisvert að hann virðist muna ýmislegt fram að atburðinum sjálfum og svo vel á eftir. Lýsingar gerandans á því hvernig hann fer inn í daginn morguninn eftir eru svolítið sérstakar í ljósi þess að hann telur að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hafði komið fyrir, en í ljós kemur að hann var alblóðugur og hafði farið að sofa í fötunum, þannig að það er ýmislegt í þessu sem stemmir ekki alveg hvað varðar gerandann.

Þá kemur til þessi nákvæma réttarmeinarannsókn og hún staðfestir tiltekna atburðarás og að allt bendi til að um hafi verið að ræða hreina árás, en ekki einhver bræðraslagsmál sem hafi leitt til slyss. Það var og er enn ríkt í umræðunni í sveitinni að þetta hafi fyrst og fremst verið slys en það var ekki þannig.“

Undirstrikar mikilvægi þess að tryggja vettvang

Sigursteinn segir það merkilegt að nákvæm rannsókn á blóðinu á vettvangi tali fyrir hinn látna og segi söguna, en í þættinum ræðir hann við blóðferlasérfræðing hjá lögreglunni.

Málið undirstriki mikilvægi þess að tryggja vel vettvang strax í upphafi og gefa sér ekki neitt og nefnir Sigursteinn í því samhengi föðurvíg í Þingeyjarsýslu árið 2000. Í því máli var bóndasyni trúað að faðir hans hefði framið sjálfsvíg, en tveimur dögum síðar kom í ljós að hann hafði verið skotinn þremur skotum í höfuðið. Í millitíðinni var búið að þrífa allt á vettvangi og henda sönnunargögnum.

„Það er svo mikilvægt að hinn látni njóti alltaf vafans. Það var þannig í málinu í Biskupstungum en ekki í málinu í Þingeyjarsýslu.“

Sigursteinn fjallar um málið í Þingeyjarsýslu síðar í þáttaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert