Þriðja vika verkfallsaðgerða BSRB hefst á morgun en lítið hefur þokast í kjaradeilu bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Á morgun, þriðjudag, bætast fleiri leikskólastarfsmenn við þann hóp sem þegar hefur lagt niður störf, en alls munu um 900 leikskólastarfsmenn leggja niður störf á morgun.
Mun áhrifa verkfallanna gæta í yfir 60 leikskólum og leikskóladeildum grunnskóla ellefu sveitarfélaga.
Um hvítasunnuhelgina lögðu félagsmenn Kjalar, aðildarfélags BSRB, niður störf í tuttugu sundlaugum og íþróttamiðstöðvum í átta sveitarfélögum.
Félagsmenn BSRB hafa þegar samþykkt frekari verkföll í atkvæðagreiðslum og að óbreyttu verður stígandi á verkfallsaðgerðum BSRB frá 5. júní samkvæmt aðgerðaráætlun sem sjá má á vef bandalagsins.
Náist ekki að semja fyrir 5. júní munu verkföllin samtals ná til að minnsta kosti 2500 starfsmanna í 29 sveitarfélögum.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði í samtali við mbl.is í gær að talsamband hafi verið á milli formanna samninganefnda deiluaðila að undanförnu, en það hafi þó legið niðri síðustu daga.
Afstöðubreytingu þurfi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi.
„Við gætum klárað þetta í dag en það þarf vilja til,” sagði Sonja.